Endubætur á Bjarmanesi

Höfðahreppur hefur samið við Helga Gunnarsson og Baldur Haraldsson að annast enduruppbyggingu húseignarinnar Bjarmaness sem í daglegu tali er kallað “gamli skólinn”. Húsið sem var byggt 1913 af Verslunarfélagi Vindhælinga er orðið illa farið og hefur verið breytt oftar en einu sinni á 90 ára ferli sínum. Upphaflega var húsið byggt sem verslun og íbúð verslunarstjóra en þjónaði því hlutverki ekki nema í um 10 ár því Verslunarfélagið hafði þá keypt eignir kaupmannsins Evalds Hemmert við Einbúann og flutti starfsemi sína þangað. Bjarmanes var þá tekið undir skólahús en ávallt var þó búið í húsinu jafnframt. Það þjónaði einnig hlutverki samkomuhúss á tímabili og eftir 1958 þegar skólinn flutti í nýtt húsnæði var það notað sem íbúðarhús og síðar sem lögreglustöð. Síðustu 10-15 árin hafa munir Sjóminja- og munasafns Skagastrandar verið varðveittir í húsinu. Framkvæmdir við endurbæturnar eru hafnar og er ætlunin að koma ytra útliti hússins sem næst upprunalegu horfi. Það felur í sér að rífa tröppur og anddyri sem byggt var austan á húsið og breyta gluggsetningu og jafnframt að endurbyggja tröppur bæði sunnan og vestan á húsinu. Einnig verður skipt um þak og endurbyggðir skorsteinar. Steinsteypa í útveggjum hússins er víða illa farin og kallar á miklar múrviðgerðirnar. Eitt af því sem hefur vakið athygli við undirbúning að endurbótunum eru múrstrikanir á neðri hluta útveggja. Þær eru listilega gerðar og bera fagmennsku fyrri tíma gott vitni þar sem í blautan múrin hefur verið strikað hleðslumynstur svo hvergi virðist skeika millimetra. Verður reynt að halda þessu sérkenni við endurbyggingu ásamt mörgu öðru sem einkenndi húsið. Má þar m.a. nefna steypta járnglugga á kjallara. Byggingastjóri við framkvæmdina er Helgi Gunnarsson en múrverk annsta Baldur Haraldsson (Hendill ehf). Eftirlit og verkfræðihönnun er á höndum Línuhönnunar en arkitekt að endurbótum er Jon Nordsteien Áætlað er að kostnaður við endurbætur utanhúss muni kosta um 5 milljónir og heildarkostnaður við að endurgera húsið muni verða um 18 milljónir. Eftir endurbygginguna er gamla skólanum ætlað hlutverk á menningar- og menntunarsviði.