Endurvinnslutunnan

Sorphreinsun VH losaði endurvinnslutunnurnar á Skagaströnd í fyrsta skipti í gær, miðvikudaginn 16. des. Þar sem um breytingu á meðferðs sorps var að ræða hefur verið nokkur eftirvænting að vita hvernig fólk hefði tekið þeim nýju siðum að flokka og greina ruslið. Endurvinnslutunnurnar eru búnar að vera í notkun í 4 vikur og á þeim tíma hafði safnast 1.200 kg í þær 200 tunnur sem fóru út. Þetta telst mjög góður árangur og greinilegt að fólk hefur tekið þeirri nýbreytni vel að taka þátt í flokkun og er meðvitað um mikilvægi þess að beina sorpinu í betri farveg en að setja það allt til urðunar. Áætla má að sorpmagnið sem fer til urðunar hafi minnkað um allt að 10% strax á fyrsta mánuði. Ef þessi árangur helst verður sorp sem fer til endurvinnslu frá íbúum á Skagaströnd tæp 15 tonn á ári og góðar líkur á að enn betir árangur náist í framtíðinni miðað við þær jákvæðu viðtökur sem Endurvinnslutunnan hefur fengið.