Samstarfsyfirlýsing undirrituð vegna uppbyggingar hótels á Skagaströnd

Frumdrög að útliti Herring Hotel unnin af ESJA Architecture
Frumdrög að útliti Herring Hotel unnin af ESJA Architecture

Á fundi sveitarstjórnar dags. 5. apríl 2023 var samþykkt samstarfsyfirlýsing milli sveitarfélagsins og Fasteignafélagsins Þingeyri um undirbúning að uppbyggingu á glæsilegu hóteli á Skagaströnd. Hótelið hefur hlotið vinnuheitið Herring Hotel enda fyrirhugað að breyta húsnæði gömlu Síldarverksmiðju ríkisins sem stendur á Hafnarlóð 9 á Skagaströnd í umrætt hótel og glæða þessa merku byggingu nýju lífi. 

Sveitarfélagið lét hanna frumdrög að útliti og útfærslu að hótelinu í lok árs 2021 en verkefnið var unnið af Esja Architecures. Framangreindar hugmyndir að uppbyggingu hótels hafa verið kynntar víða m.a. á fjárfestahátíð Norðanáttar á Siglufirði árið 2022.

Frumdrög gera ráð fyrir uppbyggingu á 4-5 stjörnu hóteli með um 60 gistirýmum, veislu-, viðburða- og ráðstefnusal og glæsilegum veitingastað með útsýni yfir hafið. Verkefnið kallar á umtalsverða fjárfestingu en endanleg kostnaðaráætlun liggur ekki fyrir á þessu stigi.

Fasteignafélagið Þingeyri hefur metnaðarfull áform um uppbyggingu Herring Hotel á Skagaströnd og mun vinna þétt með sveitarfélaginu að verkefninu á næstu mánuðum. Samkvæmt samstarfsyfirlýsingunni er gert ráð fyrir að Fasteignafélagið skili fullkláraðri útfærslu að útliti og rekstrarmódeli fyrir hótelið fyrir 1. júní 2023 sem er forsenda þess að sveitarfélagið geti ráðist í nauðsynlega skipulagsvinnu vegna verkefnisins. Deiliskipulag og aðaluppdrættir verða unnir næsta vetur með það að markmiði að framkvæmdir geti hafist sem fyrst á árinu 2024.

Verkefnið mun gjörbreyta forsendum fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu í landshlutanum enda gríðarleg vöntun á gistirýmum á Norðurlandi vestra.

Áhugasamir geta kynnt sér frumdrög að hótelinu hér.

Bókun sveitarstjórnar vegna samstarfsyfirlýsingar má finna hér.