Kveikt var á jólaljósum á Hnappstaðatúni í gær

Kveikt var á jólaljósum á fallega jólatrénu okkar á Hnappstaðatúni í gær.

Mætingin var góð og nutu gestir á öllum aldri samverunnar. Elsti bekkurinn á Barnabóli aðstoðaði sveitarstjóra við að kveikja ljósin á trénu og stóðu þau sig með prýði. Sem fyrr reyndist erfitt að bíða eftir niðurtalningunni - spennan var svo mikil!

Jólasveinar komu í heimsókn, sprelluðu og skemmtu börnunum sem tóku þátt af mikilli gleði. Boðið var upp á grillaða sykurpúða og dansað hringinn í kringum jólatréð.

Viðburðurinn tókst afar vel og setti fallegan jólabrag á bæinn. Við hvetjum alla til að gera sér ferð á Hnappstaðatún og taka mynd í jólahjartanu sem var svo vinsælt í fyrra.

Helena Mara og Björk sáu um skreytingarnar af mikilli natni. Villi Harðar liðsinnti þeim stöllum við að setja skreytingarnar upp og Árni Geir rifjaði upp gamla takta og sá um hljóðkerfið fyrir okkur. Arnór Tumi stóð svo vaktina á grillinu og sá um að allir sem vildu gætu gætt sér á sykurpúðum í góða veðrinu.  

Bestu þakkir til allra sem lögðu hönd á plóg - það er mikils metið.

Sveitarstjóri