Er barnið þitt á leið til skóla?

Nú eru skólarnir að byrja og á hverju ári eru rúmlega fjögur þúsund börn sem stíga sín fyrstu skref sem virkir þátttakendur í umferðinni. Af þessu geta skapast margar hættur sem brýnt er að fyrirbyggja.Hér eru nokkur atriði sem Umferðarstofa leggur áherslu á varðandi öryggi skólabarna.

Getur skapað hættu að aka barninu

Hafa skal í huga að öll umferð ökutækja við skóla skapar hættu. Af þeim sökum er mikilvægt að foreldrar séu ekki að aka börnum sínum að óþörfu til skóla og skapa með því hættu fyrir aðra gangandi vegfarendur – ekki  síst börn. Víða geta aðstæður verið þannig að það sé hættulegt að láta barnið ganga eitt til skóla. T.d. þar sem fara þarf yfir götur þar sem mikil umferð er. Í slíkum tilfellum er vitanlega réttlætanlegt að keyra barnið en einnig er sá möguleiki að einhver fullorðin gangi með barninu til og frá skólanum.

Nota skal sérstök stæði

Þegar nauðsyn krefur að börn séu keyrð í skóla er mjög mikilvægt að þau fari út úr bílnum þar sem þau eru örugg. Ekki stofna lífi barnsins og annarra í hættu með því að sleppa þeim út við gangstéttarbrún. Nota skal sérstök stæði eða útskot sem eiga að vera við flesta skóla. Það er líka mikilvægt að muna að barn sem er að hefja skólagöngu er ekki orðið nógu hávaxið til að sitja eingöngu með bílbelti og því er nauðsynlegt að nota hefðbundin bílpúða eða bílpúða með baki.

Er stysta leiðin örugg?

 Ef mögulegt er að láta barnið ganga eitt til skólans skal finna og ganga leiðina með barninu nokkrum sinnum áður en skólaganga hefst. Velja skal þá leið sem sjaldnast þarf að ganga yfir götu. Styðsta leiðin er ekki alltaf sú öruggasta.

Það er mikilvægt að brýna fyrir barninu að þó það sjái bíl þá sé ekki öruggt að bílstjórinn sjái það.

Ekki ganga út á milli kyrrstæðra bíla

Þar sem fara þarf yfir götu á að stoppa, líta vel til beggja hliða og hlusta. Ganga síðan yfir ef það er óhætt. Aldrei má ganga út á götu á milli kyrrstæðra bíla. Alltaf skal nota gangbrautir þar sem þær eru. Kenna skal barninu að nota handstýrð umferðarljós rétt. Hvað rauði og græni liturinn táknar. Ef barnið er komið út á gangbrautina þegar græna ljósið fer að blikka og það rauða birtist þá á það að halda áfram yfir götuna – ekki fara til baka.

Allir eiga að nota endurskin

Ef engin gangstétt er á að ganga á móti umferðinni, eins fjarri henni og unnt er. Ef fleiri eru saman á að ganga í einfaldri röð. Allir eiga að nota endurskinsmerki eða vera í yfirhöfnum með endurskini.

Börn sem eru að hefja skólagöngu eiga alls ekki að ferðast ein um á reiðhjóli. Samkvæmt lögum mega börn yngri en 7 ára ekki hjóla ein á akbraut og börnum sem eru yngri en 15 ára ber skylda til að nota hjálm.

Er foreldrið góð fyrirmynd?

Hafa skal í huga að foreldrar eru fyrirmynd barnsins. Hvernig hegða þeir sér í umferðinni? Barnið lærir meira af því sem foreldrarnir gera en því sem þeir segja. Munum því að ganga aldrei á móti rauðu ljósi og  nota alltaf viðeigandi öryggisbúnað, t.d. öryggisbelti, hjólreiðahjálma og endurskinsmerki.

Textinn er frá Umferðarstofu