Fallbyssa til Skagastrandar

Á fundi sveitarstjórnar 15. apríl 2008 var samþykkt að styrkja áhugahóp um gömlu fallbyssurnar á Skagaströnd um 500 þús kr til að flytja inn fallbyssu frá Danmörku.

 

Fallbyssan er eftirlíking af fallstykkjum frá 17. – 18. öld og er 1400 mm að lengd og vegur 60 kg. Hægt er að hlaða byssuna og skjóta úr henni púðurskotum. Hún er gerð fyrir sérstök cal. 12 “salutpatron”. Framleiðandi / seljandi gerir einnig þá kröfu fyrir afhendingu byssunnar að viðtakandi og ábyrgðarmaður komi til Danmerkur og læri á byssuna.  Fremstillet af bronze

 

Forsaga þessa máls er sú að í gömlum annálum um Skagaströnd er þess getið að fyrr á öldum þegar Skagaströnd var aðal verslunarstaður Húnavatnssýslu og víðar þá voru til á staðnum tvö fallstykki. Segir sagan að skotið hafi verið úr þessum fallstykkjum við kaupskipakomur. Heyrðist þá hvellurinn víða og vissu þá bændur og búalið að kaupskip var komið í Höfða eins og sagt var í þá daga.

Önnur fallbyssan var send til Þjóðminjasafnsins árið 1946 og er þar í einhverri geymslu. Hin fallbyssan sást síðast um 1960, þá hálfgrafin í jörð við bæinn Vindhæli í Skagabyggð. Ekki hefur reynst unnt að fá byssuna úr Þjóðminjasafninu og fallstykkið sem talið er að hafi verið við Vindhæli hefur ekki fundist.

 

Hugmyndin er því nú að fá nýja/nýlega fallbyssu keypta til að endurvekja þessa gömlu sögu Skagastrandar. Eftir töluverða leit fannst framleiðandi í Danmörku sem vill selja fallbyssu til Skagastrandar.

Fallbyssa þessi yrði eign Sjóminja- og sögusafns Skagastrandar.

Hugmyndin er að nota fallbyssuna á hátíðis og tyllidögum og skjóta þá nokkrum púðurskotum fólki til skemmtunar.

Þetta hafa nokkrir kaupstaðir hér á landi gert. T.d. Akureyri, Seyðisfjörður og Vestmannaeyjar.