Farsímasamband boðið út - Samband kemst á um Þverárfjall

Í gær var kynnt á Evrópska efnahagssvæðinu forval vegna framkvæmda við áframhaldandi uppbyggingu á GSM farsímakerfinu á hringveginum og fimm fjallvegum. Eru þessir vegarkaflar samanlagt um 500 km.

 

Meðal kafla þar sem sambandið verður bætt má nefna Norðurárdalur, Öxnadalsheiði, Möðrudalsöræfi, Jökuldalur, Skriðdalur og Breiðdalur, Hvalnesskriður, Öræfi og Sólheimasandur. Auk þessara kafla á hringveginum verður GSM-samband bætt á fimm fjallvegum: Fróðárheiði, Steingrímsfjarðarheiði, Þverárfjalli, Fjarðarheiði og Fagradal. Þessir fjallvegir eru meðal annars valdir út frá slysatíðni og meðalumferð á sólarhring.

 

Auk þessara svæða sem þarna eru nefnd eru í útboðinu nokkur svæðum í Húnaþingi sem eru sambandslaus eins og t.d. við Bólastaðarhlíð, kaflinn frá Hólabaki að Stóru Giljá svo og dauðir kaflar Húnaþingi vestra.

 

2,5 milljörðum króna, sem er hluti af söluandvirði Símans, verður varið til að hrinda fjarskiptaáætluninni í framkvæmd og er GSM-útboðið fyrsta verkefnið sem fjarskiptasjóður ýtir úr vör. Fjarskiptaáætlunin gerir ráð fyrir að GSM-farsímanetið verði þétt þar sem það gegni mikilvægu hlutverki sem öryggistæki fyrir almenning, ekki síst á fáförnum köflum á þjóðvegum landsins. Í næsta áfanga verður hugað að því að bæta sambandið víðar á stofnvegum landsins og við helstu ferðamannastaði.

 

Forvalið verður auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu og þeir sem áhuga hafa á þátttöku skulu skila tilkynningu sinni til Ríkiskaupa. Þar sem gera verður ráð fyrir rúmum tíma fyrir allt útboðsferlið er áætlað að verksamningur verði undirritaður í byrjun næsta árs. Meðfylgjandi kort (pdf) sýnir svæðin þar sem boðin verða út. Heimild: www.stjr.is

Frétt af www.huni.is