Félagsstarf eldri borgara hafið

Félagsstarf eldri borgara á Skagaströnd er hafið eftir sumarfrí. Vetrarstarfið hófst sl. fimmtudag í nýju rými sem gert hefur verið upp í félagsheimilinu Fellsborg. Starfið var dálítið á hrakhólum síðastliðinn vetur þar sem öll neðri hæð félgasheimilisins var tekin til endurbóta en þar hefur starfsemin verið undanfarin ár. Endurbæturnar voru fólgnar í að herbergi í suðurhlutanum voru öll sameinuð í einn sal með kaffiaðstöðu og geymslum og tvö rými í norðurhlutanum voru sameinuð fyrir bókasafn Skagastrandar. Nú er félagsstarfið sem sagt flutt inn í nýuppgert rými sem er bæði bjartara og rýmra en sú aðstaða sem áður hýsti starfið. Jafnframt félagsstarfinu er gert ráð fyrir að hægt sé að nýta aðstöðuna til fundahalda og reiknað með að Kvenfélag og Lionsklúbbur sem gáfu eftir herbergi sín muni nota salinn fyrir fundi og aðra starfsemi sína.