Fimmtán rétt svör tryggðu sigurinn

Góð mæting var á spurningakeppnina Drekktu betur í Kántrýbæ síðasta föstudagskvöld og létt var yfir mannskapnum. Ragna og Jonni voru spyrlar og stóðu sig afar vel eins og þeirra var von og vísa. 

Getvísi þátttakenda var auðvitað misjöfn eins og við vara að búast. Ekki þó við því að búast að allir myndu til dæmis hvað stendur á vegaskiltinu hér uppi á Kerlingarholti, hvað væri langt inn á Blönduós eða út að Hrauni. Þetta voru svona spurningar um sjálfsagða hluti, eitthvað sem allir hafa fyrir augunum en fáir muna svo þegar spurt er. Hvað heitir svo hún Didda á saumastofunni fullu nafni? Hvað hét fyrsti togari Skagstrendinga sem hafði sama nafn og hús nokkurt ber enn hér í bænum?

Sigurvegarar urðu Ástrós og Jóhanna og höfðu þær Elvu Dröfn sér til aðstoðar sem ritara ... og verður ekki fjölyrt frekar um það ;-) 

Sigurinn vannst á fimmtán réttum svörum sem líklega ber vitni um að spurningarnar hafi verið frekar erfiðar.

Peta og Vigdís Elva verða spyrlar í næstu spurningakeppni sem verður föstudaginn 3. desember og verður það að öllum líkindum síðasta keppnin fyrir jól.