Fiskmarkaður Örva hefur selt 4000 tonn

Alls hefur Fiskmarkaðurinn Örvi selt 4000 tonn af fiski á þessu ári sem er 800 tonnum meira en á sama tíma í fyrra. Af þessum 4000 tonnum hefur 3500 tonnum verið landað á Skagaströnd.

Aflinn kemur fyrst og fremst af hraðfiskibátum af stærðinni 6-15 tonn en 20 - 30 bátar hafa stundað veiðarnar að jafnaði í sumar á Skagaströnd og eru flestir þeirra á línu. Einnig hafa nokkrir dragnótabátar landað afla sínum hér.

Sala fiskmarkaðarins hefur aukist jafnt og þétt á undanförnum árum eins og sjá má á meðfylgjandi línuriti. Þá hefur hlutfall ýsu í sölunni vaxið mjög frá árinu 2002 og það sem af er þessu ári er sala á ýsu orðin meiri en á þorski.  

Aðalveiðitíminn hefur lengst jafnt og þétt þó toppurinn hafi alltaf verið í ágúst en síðastliðinn ágústmánuður var söluhæsti mánuðurinn frá upphafi.