Fjárhagsáætlun Skagatrandar samþykkt

Fjárhagsáætlun Skagastrandar fyrir árið 2009 var samþykkt á fundi sveitarstjórnar þann 27. janúar.

 

Gert er ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu rekstraráætlunar upp á rúmar 4 milljónir króna.

 

Minnihlutinn benti á að í áætluninni væri gert ráð fyrir því að nota allar fjármagnstekjur sveitarfélagsins til þess að standa undir rekstri eða 69 af þeim 73 milljónum króna sem áætlaðar eru á árinu. Til að standa undir afborgunum og framkvæmdum á árinu þyrfti því að ganga á sjóðseign sveitarfélagsins.

 

Minnihlutinn taldi því brýnna en áður að ráðast í hagræðingaraðgerðir vegna hættu á hallarekstri frekar en að skerða þjónustu sveitarfélagsins síðar. Enn fremur benti minnihlutinn á að endurskoða þyrfti áætlunina á vordögum.

 

Meirihlutinn sagðist gera sér grein fyrir gjörbreyttu landslagi og að flest öll sveitarfélög landsins yrðu að endurskoða fjárhagsáætlun sína á vordögum. Í fjárhagsáætlun 2009 væri ekki dregið úr neinni grunnþjónustu, laun ekki lækkuð og gjaldskrárhækkunum haldið í algjöru lágmarki. Fjárfestingar á árinu væru áætlaðar um 35 milljónir og miðast flestar við að vera vinnuaflsfrekar. Staða Sveitarfélagsins Skagastrandar væri sterk til að takast á við þá erfiðu tíma sem óhjákvæmilega væru framundan.

 

Að því loknu var áætlunin samþykkt samhljóða.