Fjársjóður í fjölskyldualbúminu

 

Eggert Þór Bernharðsson prófessor mun halda fyrirlestur um ljósmyndir og fjölskyldualbúmin í Rannsóknarsetri Háskóla Íslands í gamla kaupfélaginu  á Skagaströnd  næst komandi laugardag  23. mars klukkan 15:00.    

 Flestir hafa reynslu af því að fletta gömlum fjölskyldualbúmum og haft gagn og gaman af.

 Í erindinu veltir Eggert Þór Bernharðsson prófessor í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands upp ýmsum spurningum sem vaknað hafa við skoðun og könnun á fjölskyldualbúmum frá tiltekinni fjölskyldu, einkum frá árunum 1930 til 1970.

Hugað verður að því hvers konar sögu sé hægt að lesa út úr myndaalbúmum af þessu tagi, hvert sé hugsanlegt gildi fjölskyldumynda, hvað kunni að einkenna þær og hvaða möguleika þær bjóði upp á sem heimildir.

Heitt verður á könnunni og eftir fyrirlesturinn mun Eggert sitja fyrir svörum um það sem brennur á fólki í sambandi við myndirnar sínar.  Hver veit nema það felist fjársjóður í fjölskyldualbúminu þínu. 

Við þetta tækifæri verður líka sett upp lítil  ljósmyndasýning á staðnum á fjölskyldumyndum  úr Ljósmyndasafninu Skagastrandar. Fólk verður beðið um að hjálpa til við að þekkja þá sem óþekktir eru á myndunum.           

Aðgangur að fyrirlestrinum er  ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.

Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Skagaströnd