Fjöldi manns í opnu húsi Nes-listar

Carola Luther rithöfundur frá Suður Afríku les ljóð. Myndina tók Signý Richter.
Carola Luther rithöfundur frá Suður Afríku les ljóð. Myndina tók Signý Richter.

Fjöldi manns sótti heim Nes-listamiðstöðina á laugardaginn en þá buðu listamenn heimamönnum og raunar öllum Húnvetningum upp á opið hús.

Boðið var upp á léttar veitingar og listamennirnir útskýrðu list sína, sögðu frá því sem þeir unnu að og svöruðu fyrirspurnum. Þetta voru þau Timo Rytkönen frá Finnlandi, Kate Dambach frá Bandaríkjunum og Ben Taffinder frá Bretlandi og Carola Luther, rithöfundur frá Suður Afríku sem las ljóð. Dvalartíma þessara listamanna er nú að ljúka og þar sem þau voru svo ánægð með vitina langaði þeim að þakka fyrir sig með opnu húsi.

Í „frystinum“ svokallaða var listsýning Hrafnhildar Sigurðardóttur en hún er framkvæmdastjóri Nes-listamiðstöðvar. Þrátt fyrir annríki við reksturinn hefur henni gefist tími til listsköpunnar. Ssýningin nefndist „Allt í plasti“. 

Hrafnhildur verður með aðra sýningu í StartArt listamannahúsi Laugarvegi 12b í Reykjavík og hún nefnist „Leikhlé – Time out“. Sú sýning verður opin þriðjudaga til laugardaga kl.  13.00 – 17.00 og lýkur 7. janúar.

Síðdegis þennan laugardag bauð svo Sverrir Sveinn Sigurðarson rithöfundur upp á fyrirlestur í Kántrýbæ og fjallaði hann um ferðir Þorfinns Karlsefnis og Guðríðar í Vesturheimi. Hann bar saman tvær fornsögur, Grænlendingasögu og Eiríkssögu rauða og dró af þeim margvíslegar ályktanir. Til viðbótar hefur Sverrir Sveinn safnað fjölda heimildum um frumbyggja á þessum slóðu, „skrælingja“, eins og þeir eru eru kallaðir í fornritunum. Hann bar síðan þessar upplýsingar saman við það sem fram kemur í áðurnefndum sögum og dró þá ályktun að þrátt fyrir að sögurnar væru mjög ólíkar væru þær í grunnin nokkuð áreiðanlegar.

Sverrir Sveinn hefur á Skagaströnd unnið að því að skrifa skáldsögu um ferðir Karlsefnis og Guðríðar og samskipti þeirra við frumbyggja.

Meðfylgjandi myndir tók Signý Richter.