Fjöldi Skagstrendinga í símenntun

Námskeiðið „Eflum byggð“ hófst fyrir stuttu á Skagaströnd. Það er Farskóli Norðurlands vestra sem stendur fyrir því en kennarar er ýmist heimamenn eða koma annars staðar frá. Tólf þátttakendur hófu námið og enn er að fjölga í hópnum.

 

Markmiðið með námskeiðinu er að auka starfshæfni íbúanna með því að skapa jákvætt andrúmsloft í samfélaginu gagnvart breytingum og þróun í atvinnulífinu. Einnig að skapa jákvætt andrúmsloft gagnvart fræðslu í samfélaginu og auka námsgæði og aðgang að áframhaldandi menntun í samfélaginu.

 

Á fyrstu önn  er kennt í átta vikur, þ.e. þrjú kvöld í viku hverri. 

Uppistaðan á námskeiðinu er svokallaður Lífsvefur. Þar er litið var á manneskjuna „sem vef þar sem uppistaðan er meðfæddir hæfileikar og eðli hvers einstaklings, en ívafið í vefinn er sú þekking og reynsla sem hver einstaklingur hafði aflað sér á leið sinni í gegnum lífið“ (Margrét Björk Björnsdóttir. 2007. Römm er sú taug...BA – ritgerð í ferðamálafræði. Hólar í Hjaltadal). Farið í hvað einstaklingurinn getur gert til að efla sig og samfélagið sem hann býr í. Fjallað um sjálfið, sjálfstraustið, tjáskipti, samskipti, fjölskyldu og vinnustað, nám og námstækni, fjármál heimilanna og fleira. Námsefni kemur frá Mími – símenntun og fleirum.

 

Kennd er upplýsingatækni. Þeir sem áður hafa tekið þátt í námskeiðinu telja að tölvuþekkingin nýttist þeim best í daglegu starfi af þeim námsþáttum sem kenndir voru þar. Það er því mikilvægt að efla tölvulæsi fólks til að tölvan nýtist þeim bæði í daglegum störfum og tómstundum. Námsefnið er bókin UTN 1036 sem ætluð er framhaldsskólanemendum og er aðlagað að námshópnum.

 

Kennd er íslenska, talmál og ritmál, uppsetning bréfa, umsóknir um störf.

 

Áttahagafræði er einnig á námskránni. Gengið er út frá því að þátttakendur séu alltaf að „selja“ sitt heimasvæði. Hvernig er náttúran á heimaslóð? Hvað er vert að skoða? Námsefni kemur frá kennurum Háskólans á Hólum.

 

Þekking í ensku er mikilvæg. Góður skilningur á ensku nýtist við upplýsingaleit á netinu, til samskipta og á ferðalögum erlendis. Lögð er áhersla á þjálfun í talmáli. Hér er um að ræða námsefni sem Farskólinn hefur látið taka saman, sérsniðið fyrir fullorðna nemendur með stutta formlega skólagöngu að baki.

 

Stærðfræði er mikilvæg í daglegu lífi.  Hér er um að ræða margvíslega upprifjun, s.s. prósentureikning; hækkun og lækkun, einfaldir vaxtaútreikningar, eúmfræði og mælingar. Námsefni tekið saman af Farskólanum, fyrir fullorðna námsmenn.

 

Bókhaldsþekking getur nýst á fjölmörgum sviðum. Sett eru upp hagnýt dæmi í samráði við þátttakendur. Bókhaldið tengist Excel hluta upplýsingatækninnar, stærðfræði og frumkvöðlafræði. Námsefnið er bókhald 1 og efni frá kennara.

 

Þátttakendur gera færnimöppu þar sem þeir skrá alla sína þekkingu og færni og skiptir þá ekki máli hvernig hennar var aflað. Námsefnið er Færnimappa frá Mími – símenntun og Europass ferilskráin.

 

Þeir sem áhuga hafa á að taka þátt í námskeiðinu geta haft samband við Farskólann í síma 455 6010 og 455 6011. Verkefnisstjóri námsins er Gunnar T. Halldórsson en hann sér um allan daglegan rekstur. Síminn hans er 661 2505.