Fjölmenni fylgist með ástarleik andanefja í Skagastrandarhöfn

„Mér brá alvega gasalega þegar ég leit út um gluggann í morgun, ég hreinlega gargaði. Sjórinn ólgaði svo rosalega að ég hreinlega vissi ekki hvað væri að gerst, en svo kom ég auga á sporðaköstin og áttaði mig á því að hvalir voru komnir í höfnina,“ sagði Þórey Jónsdóttir, hafnarvörður á Skagaströnd.

„Ég veit ekki hvort það þýðir nokkuð að rukka þá um hafnargjöld,“  bætti hún við og hló.

Að sögn Þóreyjar hafa hvalirnir verið ærslafullir, stokkið upp úr sjónum, synt mjög hratt, ýtt aðeins við bátum og skipum, sem ekki eru enn farin til veiða, og verið þess á milli afar gæfir og jafnvel tekið við fiskmeti sem kastað hefur verið til þeirra. „Þeir láta eiginlega eins þeir séu í einkasundlaug,“ sagði hún.

Hafþór Hauksson, sjávarlíffræingur hjá Hafrannsóknarstofnun sagði í spjalli að samkvæmt lýsingu Þóreyjar væru þetta að öllum líkindum andanefjur. 

„Það er sjaldgæft að andanefjur sæki í hafnir landsins á þessum árstíma enda er þetta einfaldlega fengitími andanefja. Þó er það ekki algilt því fyrir nokkrum árum gerði þessi hvalategund sig heimakomna í Pollinum á Akureyri og stundaði álíka iðju og hún gerir núna í Skagastrandarhöfn.“

Hafþór segir að lýsing Þóreyjar passi mjög vel við það sem hvalasérfræðingar vita um ástarlíf andanefja. 

„Ástarbríminn er mikill leikur og ærsl en eftir nokkur mikil stökk hefst forleikurinn. Hann er  einstaklega tilkomumikil sjón. Og ekki er síðra þegar kemur að sjálfri eðluninni. Hún er afar ólík því sem aðrar hvalategundir iðka. Tarfurinn syndir hægt en virðulega á bakinu, kýrin leitar þá ofan á hann og takist þeim að ná saman svamla þau rólega um sjóinn þar til fullkomnun þeirra er náð.“

Þórey sagði að rétt eftir klukkan átta í morgun hafi andanefjurnar stokkið hvað hæst en nú sé öllu rólegra yfirbragð á sundi þeirra. Samkvæmt sjávarlífræðingnum hlýtur ástæðan sú að eðlunin sé í þann mund að hefjast.

Fiskisagan, eða öllu heldur hvalasagan, hefur flogið um Skagaströnd. Talsverður fjöldi fólks er nú úti á Sægarði og fylgist af miklum áhuga með ástarleik andanefjanna. 

Þórey vill hins vegar koma því á framfæri að nú sé allur akstur einkabifreiða fram bryggjurnar bannaður og hvetur hún fólk til að koma gangandi og trufla ekki vinnandi fólk.

Síðar í dag verða birtar myndir hér á vefnum af því sem gerist á í höfninni.