Fjölmenni í labbitúr með Óla Benna

Uppi á Höfða stendur fólk í hnapp og virðir fyrir sér ókunnan fugl í trébúri, svartan á væng með hvítan haus og bæði arnarnef og arnarklær. Togarinn Arnar hafði komið að landi fyrir nokkrum mínútum með þennan nafna sinn um borð sem var orðinn uppgefinn á að berjast yfir hafið og fékk far með skipi í land.

 

Jón Örn segir að þetta sé gjóður eða svokallaður fiskiörn. Hann tekur fuglinn úr búrinu og sleppir honum. Gjóðurinn flögrar um með tignarlegum vængjatökum arnarins eins og hann sé ráðvilltur en hverfur svo út yfir Húnaflóa.

 

Þannig hefst jákvæðnigangan á Skagaströnd á miðjum sunnudegi.  

 

"Þarna var forðum daga bryggja, þarna var verslunarhús sem stóðum um aldir og þarna má greina Spákonufellsey sem var sprengd niður til hálfs í hafnargerð". Óli Benna fór á kostum með samferðamönnum sínum  í labbitúr í gærdag. Þrátt fyrir ískalda norðaustanáttina mættu um áttatíu manns til að skoða útbæ Skagastrandar með Óla.

 

Og Óli var ekki einn um frásagnirnar. Fjölmargir krydduðu ferðina með ýmiskonar sögulegum staðreyndum og ekki síður gamansögum. Gengið var frá Spákonufellshöfða og um svokallaðan útbæ, en til hans heyrir næsta nágrenni Höfðans ásamt höfninni.

 

Fyrir unga Skagstrendinga og aðflutta var gangan hin besta skemmtun og var sem löngu gengnir menn og horfin hús fengu nýtt líf, að minnsta kosti í hugum þátttakenda. Kostuleg var sagan af sveitarstjóranum sem fór sparlega með og hafði það fyrir sið að klippa ópalið sitt í tvennt. Þannig fékk hinn ungi Adolf Berndsen hálft ópal að launum fyrir að skreppa út í Siggabúð og kaupa það.

 

Gaman var að sögunni um manninn sem fékk ekki frið til að vera dauður. „Ertu ekki dauður?“ var spurt. „Heldurðu að dauður maður bjóði góðan dag,“ svarði „líkið“.

 

Og svo er það Bankastræti. Heitir það svo vegna þess að einn íbúanna átti fleiri erindi í bankann en aðrir? Eða var það kannski af því að sá hinn sami fór aldrei tómhentur heim úr vinnunni og gat þess vegna lánað það sem aðrir áttu og var því sjálfur kallaður „banki“? Áhugverð pæling í bankakreppunni sem var annars ekki til umfjöllunar í gönguferðinni.

 

Komið var við í gamla Kaupfélagshúsinu sem svo er kallað. Það keypti Laura ehf. undir forystu Lárusar Ægis Guðmundssonar fyrir nokkrum árum og hefur gert það upp af miklum myndarskap. 


Göngumenn fengu að skoða húsið og var það kærkomið enda hlýtt inni. Lárus sagði frá húsinu og kom fram að í því hafði ekki aðeins verið verslun Kaupfélag Skagstrendinga heldur margt annað svo sem bakarí, skrifstofur, birgðageymslur, íbúðir, leikhús, bíó, saumastofa, prjónastofa, ballstaður, svefnpláss stúlkna á síldarárunum og ef til vill margt fleira.

 

Þannig lifnaði sagan við og bæði gengið fólk og horfin  byggð var töfrað fram með lýsingum og frásögnum. Jafnvel álfarnir og huldufólkið í Höfðanum fékk sinn kafla í frásögninni.

 

Eftir kaldan en skemmtilegan göngutúr var gott að komast í hlýjuna í gamla skólanum, Bjarmanesi þar sem beið heitt kaffi, kakó og vöfflur.