Formlega hleypt á hitaveitu á Skagaströnd

Ný hitaveita var tekin formlega í notkun á Skagaströnd föstudaginn 1.nóvember þegar Árni Steinar Jóhannsson, stjórnarformaður RARIK hleypti vatni á dreifikerfið. Tenging húsa við kerfið er hafin.

Sveitarfélagið Skagaströnd og RARIK ohf. undirrituðu samning 30. desember 2011 um lagningu hitaveitu til Skagastrandar og 22.maí s.l. var fyrsta skóflustungan tekin fyrir dreifikerfi hitaveitu RARIK á Skagaströnd. Hitaveitan á Skagaströnd er stækkun Blönduósveitu sem nær yfir veitusvæði á Blönduósi og Skagaströnd, auk hluta af dreifbýlinu milli Blönduóss og Skagastrandar.

Hleypt var á stofnæðina til Skagastrandar fyrir nokkrum dögum. Þá var opnað fyrir til reynslu í dælustöðinni á Skagaströnd og búnaður prófaður. Hitastig vatnsins reyndist 61°C og mun hækka með aukinni notkun. Íbúar á Skagaströnd geta því tengt hús sín við veituna og eru hvattir til að tengjast sem fyrst

Heita vatnið kemur frá Reykjum í Húnavatnshreppi. Boruð var ný vinnsluhola til að mæta auknu álagi og stofnpípa til Blönduóss endurnýjuð, en sú framkvæmd var á dagskrá burtséð frá hitaveitunni á Skagaströnd.

Að undanförnu hefur verið unnið að frágangi á tengigrindum og uppsetningu mæla fyrir hitaveituna á Skagaströnd. Nýjustu tækni er beitt við mælingu og álestrar verða rafrænir og því verða allir reikningar byggðir á raunverulegri notkun, í stað þess að áætla milli álestra eins og algengast var. Sama gjaldskrá mun gilda fyrir allt veitusvæðið.

Samhliða lagningu dreifikerfis hitaveitu um Skagaströnd voru lögð rör fyrir ljósleiðara í öll hús sem tengjast hitaveitunni og má reikna með að ljósleiðaratengingar verði til staðar fyrir þá sem þess óska í byrjun næsta árs.

Heildarkostnaður við verkið var áætlaður um 1.117 m.kr. þar af var kostnaður við borun og virkjun nýrrar holu að Reykjum um 160 m.kr. og endurnýjun stofnpípu frá Reykjum til Blönduóss um 346 m.kr.

RARIK vill þakka íbúum Skagastrandar og Blönduóss fyrir mjög góða samvinnu við uppbyggingu veitunnar og óskar Skagstrendingum til hamingju með heita vatnið.