Forritarar framtíðarinnar - styrkur til Höfðaskóla

 

Forritarar framtíðarinnar í Höfðaskóla

Úthlutun hefur farið fram úr sjóðnum Forritarar framtíðarinnar, en tilgangur hans er að efla tækni- og forritunarkennslu í grunn- og framhaldsskólum landsins. Sjóðnum bárust 32 umsóknir í þessari úthlutun, flestar frá grunnskólum. Höfðaskóli var einn af 11 grunnskólum sem fékk úthlutað styrk úr sjóðnum. Styrkirnir eru ýmist í formi tölvubúnaðar og/eða fjárstyrks sem fer í að þjálfa kennara til forritunarkennslu en Höfðaskóli fékk einmitt styrk til þess síðarnefnda.

Sjóðurinn Forritarar framtíðarinnar var stofnaður árið 2014 og hafa veitt styrki árlega til skóla landsins. Áður hafa þrír skólar á Norðurlandi vestra hlotið styrk úr sjóðnum, Árskóli, Grunnskólinn austan Vatna og Blönduskóli. Sjóðurinn er samfélagsverkefni og eru hollvinir sjóðsins Reiknistofa bankanna, Íslandsbanki, Landsbankinn, CCP, Icelandair, Össur, Cyan, KOM, Marel og Advania.

Tækni-og forritunarþekking er afar mikilvæg nú á tímum upplýsingatæknibyltingar og því eru kennarar Höfðaskóla afar spenntir að takast á við verkefnið í vetur. Frá og með næsta vetri er því gert ráð fyrir að forritun verði mikilvægur þáttur í öllu námi nemenda okkar.