Frábær skemmtun í Drekktu betur

Fullt hús var í Kántrýbæ á miðvikudagskvöldið þegar fram fór fyrirtækjakeppni í spurningaleiknum geðþekka, Drekktu betur.

Raunar var þetta í 39. sinn að Drekktu betur er haldin á Skagaströnd. Um eitt hundrað manns voru í Kántrýbæ, um sjötíu keppendur í 24 liðum.

Rúmlega tuttugu áhorfendur mættu, margir hverjir stuðningsmenn einstakra liða. Þeir létu þeir vel í sér heyra, rétt eins og áhorfendur á knattspyrnuleik. Skilti voru á lofti, bylgjur myndaðar og hvatningahróp bergmáluðu. 

Spyrlar og dómarar voru Ólafía Lárusdóttir og Ingibergur Guðmundsson og yfirdómari var Sigurður Sigurðarson.

Úrslitin urðu sem hér segir:

Jöfn í 3. sæti með tuttugu stig voru lið Trésmiðju Helga Gunnarssonar, Fiskmarkaðarins, Arnars HU 1, Sveitarfélagsins Skagastrandar og Trillanna þriggja í Höfðaskóla. 

Þessi lið tilnefndu hver sinn fulltrúa sem drógu spilið úr spilabunka en það lið sem dró hæsta spilið fékk 3. sætið. 

Niðurstaðan varð sú að Fiskmarkaðurinn varð hlutskarpastur en í liðinu voru þessir: Reynir Lýðsson, Patrik Bjarnason og Þórey Jónsdóttir. Fengu þau nokkrar tveggja lítra Coca Cola flöskur í verðlaun og páskaegg. 
 
Í 2. sæti varð lið Hafrúnar HU 12 með 21 stig. Í liðinu voru Jóhann Sigurjónsson, Karl Olsen og Hafþór Gylfason. Hlaut hver og einn  bjórkassa og páskaegg.
 
Sigurvegarar fyrirtækjakeppninnar var lið Spákonuarfs með 25 stig. Liðið skipaði Sigrún Lárusdóttir, Dagný Marín Sigmarsdóttir og Lárus Ægir Guðmundsson. Hlutu þau bjórkassa, rauðvinflöskur og páskaegg í verðlaun.

Verðlaunin komu frá Vífilfelli; Coka Cola, Carlsberg bjór og rauðvín.

Frá Samkaupum úrval komu páskaeggin. 

Forráðamenn keppninnar færa þessum ágætu styrktaraðilum bestu þakkir fyrir stuðningin og vegleg verðlaun.

Kependum og áhorfendum eru hér með færðar bestu þakkir fyrir þátttökuna. Kvöldið var afskaplega skemmtilegt og vel heppnað kvöld.