Framlag úr ríkissjóði vegna aflasamdráttar

Skagaströnd hefur fengið 10,8 milljóna króna framlag vegna tímabundins samdráttar í aflamarki þorsks á árinu. Þetta er hluti af 250 milljóna króna framlagi ríkissjóðs til sveitarfélaga á landinu.

Tvö sveitarfélög á Norðurlandi vestra fá úthlutað að þessu sinni en það eru Skagaströnd sem fær 10.754.656 og Skagafjörður sem fær 4.231.041

Úthlutunin nú byggist á sambærilegum forsendum og árið 2007 sem er áhrif ákvörðunar um aflaniðurskurð á einstök sveitarfélög þar sem aflamark er skráð. Þó er að þessu sinni miðað við minnkun aflamarks eins og það var í hverju sveitarfélagi um sig þann 1. september 2007, en ekki meðaltal úthlutaðs aflamarks nokkur fiskveiðiár þar á undan eins og gert var fyrir ári. 

Framlagið kemur frá samgönguráðuneytinu sem telur að með framlaginu sé betur mætt áhrifum af niðurskurði í aflamarki þorsks í hverju sveitarfélagi þar sem skoðuð er staða aflamarks við upphaf þess tíma er niðurskurðurinn tók gildi. Alls er 200 milljónum króna varið til þessa þáttar.

Þá er sú breyting gerð nú, að sérstakt tillit er tekið til breytinga sem átt hafa sér stað í lönduðum afla milli fiskveiðiáranna 2006-2007 og 2007-2008. Alls er 50 milljónum króna varið til þessa þáttar, en framlaginu er ætlað að mæta minnkandi umsvifum í starfsemi hafna vegna ákvörðunar um niðurskurð í aflamarki þorsks.

Við úthlutunina var tekið mið af því, að vægi ofangreindra þátta er misjafnt í atvinnustarfsemi einstakra sveitarfélaga. Ennfremur var ákveðið að hámarksúthlutun til einstakra sveitarfélaga yrði 35 milljónir króna. Markmið úthlutunarinnar er að framlag renni til þeirra sveitarfélaga sem verða fyrir umtalsverðum áhrifum vegna hins tímabundna samdráttar í þorskafla.