Frekar hlýtt og lygnt í desember á Skagaströnd

Veðurstofa Skagastrandar hefur gefið út yfirlit yfir veðrið á Skagaströnd í nýliðnum desember. Í stuttu máli hefur veðrið verið til lítilla vandræða. Meðalhitinn mánaðarinn skreið rétt yfir frostmark, var 0,5 gráður.

Hlýjasti dagur mánaðarins var sá 26. er hitinn fór upp í 8 gráður að meðaltali. Tæpri viku áður hafði þó mælst kaldasti dagurinn. Frá 16. og fram til 25. desember ríkti kuldakafli sem náði lágmarkinu þann 21. en um klukkan 15:40 þann dag var kaldast, -9,8 gráður. Eftir það losaði frostið og á jóladag var hitinn kominn upp í frostmark og hlýtt var fram á gamlársdag en þá var meðalhitinn -0,5 gráður.

Vindgangur á Skagaströnd, ef svo má að orði komast, var með ágætum í desember. Að meðaltali var blásturinn um 7,2 m/s sem þykir nú varla mikið. Hvassast var þann 18. desember en þann dag mældist 14,8 m/s að meðaltali.

Lygnast var í upphafi mánaðarins, þá mældist 1,7 m/s í tvo daga, 2. og 3. desember.

Enn er ekki úrkoma mæld á Skagaströnd þó er ljóst að stundum rignir og stundum snjóar. Það gerist hins vegar aldrei samtímis.

Veðurstofa Skagastrandar hefur gefið út veðurspá fyrir janúar. Í stuttu máli mun ýmist snjóa eða rigna í mánuðinum. Oft verður úrkomulaust. Stundum frystir en þó verður hitastigið oftar en ekki yfir frostmarki. Nánari upplýsingar um veður veitir útibúið, Veðurstofa Íslands.