Frelsið

Í gærkveldi kom Kjartan Hauksson á árabáti sínum Frelsi til Skagastrandar. Kjartan stefnir að því að róa umhverfis landið á næstu 7-8 vikum en búast má við að róin vegalengd verði u.þ.b. 3000 km.

 

Leiðangur þessi hófst í raun í ágúst 2003 en ferðinni lauk með brotlendingu í Rekavík, norður af Bolungarvík þann 7. sept  sama ár.

 

Kjartan hóf síðan að nýju för frá Bolungarvík á sjómannadaginn þann 5. júní sl.

Tilgangurinn með ferðinni er að vekja athygli á ólíkum möguleikum fatlaðra og ófatlaðra til ferðalaga. Eins og báturinn ber verkefnið yfirskriftina Frelsi og vísar til þess að hreyfihamlaðir eru hvattir til þess að láta drauma sína  um að ferðast innanlands og utan rætast.

 

Með ferðinni er ennfremur verið að safna fé í Hjálparsjóð Sjálfsbjargar sem var stofnaður 1997 en hann hefur það að markmiði að auðvelda hreyfihömluðum að ferðast.

 

Kjartan fékk góðan dag á Húnaflóa í gær í blíðskaparveðri.

 

Kjartan gisti á Skagaströnd í nótt og lagði síðan á stað snemma í morgun.

 

Þeir sem vilja fylgjast með ferð Kjartans er bent á slóðina sjalfsbjorg.is, þar má m.a sjá skemmtilegar myndir.