Frétt frá Námsstofu

Námsstofan á Skagaströnd Nú er vorönn hjá þeim skólum sem eru með fjarnám. Fjarnámsnemendur eru farnir að mæta í Námsstofuna eftir jólafrí og áramótaannir. Tveir nýir nemendur hafa gert samning um aðgang að aðstöðunni eftir áramót. Enn skal ítrekað að í Námsstofunni er góð aðstaða til að stunda fjarnám, nokkrar tölvur og lesstofa. Nú er búið að tengja fjarfundabúnaðinn sem þýðir að nú er hægt að sitja kennslustundir í Námsstofunni. Þrír nemendur hafa nýtt sér það á nýju ári. Föstudaginn 18. febrúar kemur hingað ungur maður sem er að vinna lokaverkefni sitt við Háskólann í Kaupmannahöfn í rafmagnsverkfræði og tölvunarfræðum. Verkefni hans er unnið í samvinnu við Flugmálastjórn og er örsmár hluti af flugumferðarstjórnunarkerfinu á Atlandshafinu. Hann kemur hingað með sína tölvu og prentara, tengist kerfinu hér og nýtir sér fjarfundabúnaðinn til að vera í sambandi við Kaupmannahöfn og Reykjavík. Hann reiknar með að vera hér í 1-2 vikur. Við lítum á þetta sem tilraun og ef hún gefst vel og allt virkar eins og það á að gera geta aðrir fylgt í kjölfarið. Þriðjudaginn 8. febrúar hófst tilraunaverkefni Námsstofunnar og Trésmiðju Helga Gunnarssonar ehf. Helgi kemur inn á Námsstofuna með 1-2 starfsmenn með sér á morgnanna og er um 2 klst. Umsjónarmaður Námsstofunnar leiðbeinir þeim um Internetið, póstforrit, Exel, Word o.s.frv. allt eftir þörfum hvers einstaklings. Næst mætir Helgi föstudaginn 11. febrúar og síðan verður næsti dagur ákveðinn. Þriðjudaginn 22. febrúar verður fyrri hluti námskeiðs í AutoCAD í tölvuveri Höfðaskóla. Seinni hlutinn verður þriðjudaginn 15. mars. Fyrirtækið Snertill sem er viðurkenndur sölu- þjónustu- og kennsluaðili Autodesk og CADPOINT verður með námskeiðið. Námskeiðið er á vegum Námsstofunnar og á milli fyrri og seinni hluta verður hægt að koma í tölvur Námsstofunnar og æfa sig í verkefnum í AutoCAD eftir samkomulagi við umsjónarmann. Þeir sem vilja aðstoð eða nýta aðstöðuna í Námsstofunni á Skagaströnd er bent á að hafa samband við undirritaðan. Febrúar 2005 Umsjónarmaður Námsstofunnar á Skagaströnd Hjálmur Sigurðsson S: 8440985