Fréttaskot frá Skagaströnd

Það hefur gengið á ýmsu í sumar í sveitarfélaginu!

Ráðist hefur verið í margvíslegar framkvæmdir. Unnið hefur verið að framkvæmdum í grunnskólanum. Sett var kerfisloft og ný lýsing í anddyri skólans ásamt því að taka eldhúsið á fyrstu hæðinni alveg í gegn. Með tímanum er stefnt að því að hægt verði að nýta eldhúsið sem móttökueldhús. Framkvæmdin heppnaðist afar vel og hljóðvist orðin mun betri en hún var með tilkomu kerfisloftsins.

Á Bogabraut 7 sem hýsir Undirheima félagsmiðstöðina okkar og Vivu hárgreiðslustofu þurfti að fara í allsherjar framkvæmdir utanhúss og er húsið hið glæsilegasta eftir yfirhalninguna.

Verið er að klára málun á Túnbraut 5 og við náum vonandi að hefja málun á Túnbraut 9 fyrir veturinn ef tíðarfar verður gott.

Hafnarframkvæmdir við endurbyggingu Ásgarðs hafa gengið með ágætum. Búið er að leggja allar vatns- og idrátttarlagnir, klára gróffyllingu og jöfnun ásamt því að setja upp alla tengi- og vatnsbrunna. Framundan er að klára járnabindingar og uppslátt fyrir þekjuna.

Fiskveiðar við Húnaflóa gengu prýðilega á nýliðnu fiskveiðiári og nam sá heildarafli sem landað var á Skagastrandarhöfn 7.411 tonnum.

Framkvæmdir eru þá loksins hafnar við Spákonufellshöfða en byggður verður 320 m göngustígur og lítill útsýnispallur sem verður aðgengilegur fyrir alla. Framkvæmdin klárast fyrir veturinn. Okkar margreyndi Helgi Gunnarsson ætlar að tækla þetta verkefni með strákunum hjá Verklausn og verður gaman að fylgjast með framgangi verksins.

Það hefur kannski skemmt einhverjum að sjá hann Adda forstöðumann íþróttahúss og sundlaugar mála heila hlið á íþróttahúsinu með ca. 10 cm breiðri málningarrúllu á dögunum. Þetta hefur hann verið að nostra við þegar vel hefur viðrað síðustu vikur ásamt því að mála alla gluggalistana á íþróttahúsinu.

Mikið hefur verið spurt um húsin á Ránarbraut og eru framkvæmdir að hefjast að nýju. Gólf verða flotuð í vikunni og þá verður hægt að ráðast í uppsetningu á innréttingum. Áætlað er að húsin verði fullbúin í október og að nýir leigjendur geti flutt inn fyrir jólin. Lóðirnar verða svo kláraðar næsta vor.

Það styttist í opnun REGUS á Túnbraut 1-3 en vonir standa til þess að hægt verði að opna fyrir mánaðamótin sept/okt. 

Margrét Rut Valdimarsdóttir var nýverið ráðin til starfa sem prestur Í Húnavatnsprestkalli með sérstakar skyldur á Skagaströnd og tekur við starfinu af Bryndísi Valbjarnardóttur. Hún flutti til Skagastrandar ásamt eiginmanni sínum Steindóri Hrannari Grímssyni í síðustu viku og við bjóðum þau hjartanlega velkomin í samfélagið okkar.

Á dögunum sagði Akureyrarbær frá því að Umhverfis- og mannvirkjaráð Akureyrarbæjar hafi samþykkt niðurstöðu dómnefndar varðandi útboð á smáíbúðum fyrir Akureyrarbæ. Niðurstaðan er að gengið verði til samninga við Verklausn ehf. um byggingu smáhúsanna sem verða framleidd á Skagaströnd. Í útboðinu kom fram að um væri að ræða átta færanlegar íbúðir í einbýli, um 35 fermetrar að stærð. Glæsilegt verkefni fyrir vaxandi fyrirtæki á Skagaströnd.

Af hleðslustöðvarmálum eru svo góðar fréttir en það styttist í að uppsetning á hraðhleðslustöð verði klár. Um er að ræða 150 kW Alpitronic hraðhleðslustöð opna almenningi með tveimur CCS2 tengjum, hægt verður að hlaða tvo rafbíla samtímis. Stöðin verður staðsett á lóð Olís, Oddagötu 2. Hraðhleðslustöðina má finna í Ísorku appinu og verður aðgengileg með hleðslulykli Ísorku og með Ísorku appinu.

Ísorka þjónustar í dag hátt í 5000 hleðslustöðvar í sérbýlum, fjölbýlum, fyrirtækjum, sveitarfélögum og stofnunum. Við hjá Ísorku erum einkar ánægð með þessa viðbót í hleðslunetið og að geta stutt við uppbyggingu hleðsluinnviða á Skagastönd. Við vonum svo sannarlega að stöðin komi að góðum notum fyrir íbúa og gesti sveitarfélagsins.

Þann 1. september sl. tók við vetraropnunartími í íþróttahúsi og sundlaug

Sundlaug:

16:00-20:00 mánudaga-föstudaga

13:00-17:00 laugardaga

Lokað er á sunnudögum.

Íþróttahús:

06:45-20:00 mánudaga

07:45-20:00 þriðjudaga

06:45-20:00 miðvikudaga

07:45-20:00 fimmtudaga

06:45-16:00 föstudaga

10:00-12:00 laugardaga

Minnum svo á krílasport sem er í íþróttahúsi alla laugardaga kl 10:00-11:00. Öll börn á leikskólaaldri velkomin. Frítt inn og engin skráning - bara mæta með góða skapið.

 

Sveitarstjóri

(sveitarstjori@skagastrond.is)