Fréttir frá leikskólanum Barnabóli

3. maí 2007

 

Fréttir frá leikskólanum Barnabóli

 

Heimsókn frá Noregi

Leikskólinn Barnaból fékk góða heimsókn frá Noregi 23. apríl s.l. en þá komu átta leikskólakennarar og starfsmenn tveggja leikskóla frá Kragero í Noregi. Fyrir hópnum fór Lára Bylgja Guðmundsdóttir leikskólastjóri en hún er ættuð frá Skagaströnd og búsett í Kragero. Þar sjórnar hún tveim leikskólum um 20 og 16 barna og er annar þeirra staðsettur á lítilli eyju. Lára Bylgja var fyrsti leikskólastjórinn á Barnabóli þegar hann opnaði árið 1977 og stjórnaði honum í rúmt ár. En leikskólinn Barnaból verður einmitt 30 ára þann 7.  júní n.k. og þó leikskólastarf og umhverfi leikskólans hafi breyst mikið á þessum 30 árum þekkti Lára Bylgja aftur sumt af leikföngunum og útileiktækjunum sem enn eru í fullri notkun hér.

Kragero fólkið stoppað góðan tíma hjá okkur og við skiptumst á upplýsingurm um skólana og hvað væri líkt og hvað ólík með þeim. Lögð er mikil áhersla á útivist og hreyfingu í Kragero eins og hjá okkur. M.a. starfrækja þau útileikskóladeild fyrir elstu leikskólabörnin sem dvelja  þá á ákveðnum stað út í skógi mest allan daginn og leika sér með þann efnivið sem umhverfið býður upp á. Þar hafa þau aðgang að í litlu húsi „hytte“ sem er með snyrtingu og aðstöðu til að matast í. Á leikskólanum Barnabóli höfum við einmitt verið að prufa útileikskóladeild á Tjaldstæðinu og hefur það gefist vel. Dvalargjöldin eru mun hærri hjá þeim en hér og þeim fannst Barnaból vera vel búinn og voru m.a. hrifinn af sandkassanum okkar með skjólinu fyrir austanáttinni og fannst svarti sandurinn afar áhugaverður. Það stendur til að starfsfólk Barnabóls fari í heimsókn til þeirra næsta vor.

 

Leikskólastarfið

Maí er runnin upp með þétta dagskrá eins og ávalt á þessum árstíma. Elstu börnin hleypa heimdraganum og sofa eina nótt í Skíðaskálanum í útskriftaferð 8.-9. maí. Farið verður í  sveitaferðina 21. maí að Tjörn á Skaga. Útskriftarárgangurinn fer í þriggja daga vorskóla í Höfðaskóla. Það eru hjóladagar alla fimmtudaga og síðasti leikfimisdagurinn verður 15. maí og þá mega allir fara í sturtu. Föstudaginn 25. maí er útskrift úr hópastarfi vetrarins með hefbundnu sniði.   

Fimmtudaginn 7. júní á leikskólinn Barnaból 30 ára afmæli og þá er öllum boðið í afmælisveislu og á sýningu á verkum barnanna frá kl. 16-18 og vonumst við til að sem flestir , fyrrum nemendur og starfsfólk leikskólans mæti sem og bæjarbúar. Um miðjan júní förum við með öll börnin í sund, farið verður í marga gönguferðir og í síðustu vikunni fyrir sumarfríslokun verður grillveisla og karnivalstemming á leikskóallóðinni. Sumarfríslokun leikskólans er frá og með 9. júlí til 11. ágúst.

 

Með ósk um gleðilegt sumar

Þórunn Bernódusdóttir

leikskólastjóri