Fréttir frá leikskólanum Barnabóli 29. september 2006

Ný eldhúsálma og fleira

 

 

Í vor kom Magnús sveitarstjóri ásamt Braga tæknimanni frá Stoð ehf í heimsókn á leikskólann Barnaból. Erindið var að mæla upp eldhús leikskólans í því augnarmiði að stækka það út undir þakið sem fyrir var yfir pallinum. Magnús og Bragi fóru strax á fullt að mæla og finna hornrétta fleti á meðan Þórunn leikskólastjóri reyndi að sjá fyrir sér hvaða skápa og skúffur best væri að velja inn í nýtt eldhús.

Eftir mælingar og umræður var ákveðið að fara í framkvæmdir og stækka eldhúsið sem verið hefur óbreytt frá 1977 og orðið of lítið og óhentugt fyrir starfsemi í dag. Á s.l. ári var eldað fyrir um 44 börn og 7 starfsmenn í  eldhúsinu sem í upphafi var eingöngu ætlað til að framreiða nesti úr og ekki gert ráð fyrir rekstri stórs mötuneytis. 

Framkvæmdir hófust í júní og fyrir sumarfrí leikskólans var búið að steypa nýja gólfplötu, smíða glugga og veggeiningar og panta innréttingu frá Ikea. Í ágúst var hafist handa við að byggja nýju „álmuna“ við þá gömlu og fram í september einkenndist miðjuálma leikskólans af umgangi iðnaðarmanna, miklu ryki, límlykt, hamarshöggum og vélsagarhljóði.

Föstudaginn 22. september var verkinu lokið og nýja eldhúsið var síðan opnað með formlegum hætti 25. september. Elsta og og yngsta barn leikskólans, drengur og telpa, þau Auðunn Árni Þrastarson 5,8 ára og Halldóra Eiríksdóttir 2,1 árs klipptu á borða og þar með var eldhúsið tekið í notkun við fagnaðarlæti viðstaddra. Leikskólabörnum (en þau hafa fylgst með framkvæmdum frá upphafi af miklum áhuga), starfsmönnum leikskólans og hreppsnefnd Höfðahrepps var boðið að þiggja léttar veitingar að athöfn lokinni.

Almenn ánægja er með hvernig til hefur tekist með fyrirkomulag, nýtingu og útlit á nýja eldhúsinu og þó stækkunin sé kannski ekki mikil í fermetrum talið (um 12-13 fermetrar) er þetta góð stækkun og mikil breyting,  mun rýmra og innréttinging stærri og hentugri.

Trésmiðja Helga Gunnarssonar á Skagaströnd sá um verkið og aðalsmiðir á staðnum voru Einar Gunnarsson og Sigurður F. Björnsson. Stoð ehf  á Sauðárkrók sá um að teikna nýbygginguna og Björn Hallbjörnsson frá Neistanum ehf  sá um raflagnir. Og þökkum við öllum sem komu að verkinu kærlega fyrir gott starf.

 

Vetrarstarf Barnabóls 2006-2007 er fjölbreytt að vanda og ýmsar nýjungar í gangi. T.d. verða sérstakir listgreinadagar einu sinni í mánuði sem viðbót við annað listrænt starf. Á þessum dögum verður glímt við listræna sköpun af ýmsu tagi t.d. flutt  leikrit, söngleikir, málaralist og hönnun svo eitthvað sé nefnt.  Í vetur verður ekki leikfimikennari með okkur í íþróttahúsinu á þriðjudögum en starfsmenn sjá um skipulag tímanna. Börnum á leikskólaaldri úr Skagabyggð, sem ekki eru á leikskólanum, er  boðin þátttaka í leikfiminni eins og undanfarin ár. Þar sem aðeins 3 börn koma í leikskólanum kl. 13-17 og ekki er skynsamlegt að vera með leikfimi fyrir þetta fá börn koma þau líka á milli kl. 11-12 í þriðjudagsleikfimina.     

 

Með kveðju frá Barnabóli

           Þórunn Bernódusdóttir

            Leikskólastjóri