Fróðleikur frá Spákonuarfi.

Listin að lesa úr innmat.

Nú þegar sumri er tekið að halla og septembermánuður heilsar með fallandi laufum og næturfrosti, er rétt að huga að haustverkum á öllum betri heimilum. Á það ekki einungis við um sultugerð og kartöflutínslu því haustinu fylgir líka sláturtíð með viðeigandi verkum og því rétt að láta hendur standa fram úr ermum. En þegar staðið er yfir sláturpottunum eða keppir saumaðir á síðkvöldum leitar hugurinn að komandi vetri og þeirri tíð sem í vændum er. Verða jólin hvít eða rauð? Þarf að grafa upp síðbrækurnar í október? Verður hægt að spila golf fram að aðventu? Íslendingar hafa löngum notast við þjóðlegar aðferðir til þess að segja fyrir um veður komandi vetrar og er rétt að rifja þær upp nú í upphafi sláturtíðar og eyða um leið þeirri óvissu sem óljós vetrartíð hefur í för með sér.

Ekki þarf að leita langt yfir skammt í þessum efnum því reynslan sýnir að finna má svör við flestum okkar veðurspurningum í innmat hinna ýmsu dýra. Þannig er tilvalið að skoða garnir fyrstu sauðkindarinnar sem slátrað er á haustin og gæta vel að innihaldinu, enda getur það gefið óbryggðula vísbendingu um veðurfarið. Þar sem garnirnar eru fullar af gor er góðrar tíðar að vænta en tómu kaflarnir vita á harðindi og snjó. Svo er hægur vandi að reikna út dagsetningar eftir því hvort gorinn liggur framarlega eða aftarlega í görnunum.

Óvíst er að allir komist auðveldlega yfir kindagarnir en þá má benda á nautgripamilta sem þjónað getur sama tilgangi. Nokkrar aðferðir eru þekktar við að spá í milta en sú sem er hvað einföldust byggist á því að skera eða höggva miltað í þrjá hluta, helst blindandi. Veðurspáin er svo lesin frá hægri til vinstri, því stærri sem bitarnir eru, því verri tíð. Jafnir bitar vita hinsvegar á góðan vetur. Ráðlegt er að hafa sjúkrakassann við höndina þegar slíkur spágjörningur er framinn, þar sem óvanir gætu hoggið eitthvað annað en ætlunin var – sér í lagi með bundið fyrir augun.

Þó langtímaspár séu ágætar getur einnig verið gott að hafa við höndina tæki sem spáir fyrir um nánustu veðurframtíð. Það á sérstaklega við ef fólk hefur misst trúna á veðurfræðinga sjónvarpsins og vill taka málin í eigin hendur. Í slíkum tilfellum má notast við kýrblöðru sem blásin er upp og kallast þá veðurspámaður. Þegar blaðran er lin er von á stilltu veðri en stormi ef veðurspámaðurinn er harður. Með þessu móti ætti veðrið aldrei að koma á óvart, svo ekki sé minnst á hversu vel uppblásin kýrblaðra fer í stofu.

Af þessu má ráða að það er hægur vandi hverjum þeim sem áhuga hefur að gerast veðurfræðingur, svo framarlega sem hann hefur aðgang að nægum innmat og iðrum.

Spákonuarfur, Skagaströnd