Frostrósir blómstruðu á Skagaströnd allan mars

Mars var kaldur á Skagaströnd, kaldari en janúar og febrúar og kaldari en desember og nóvember á síðasta ári. Svo kalt var í mars að frostrósir blómstruðu. Að minnsta kosti er þetta álit Veðurstofu Skagastrandar en hún veit margt sem öðrum er hulið. Hér skal greint frá nokkrum þáttum er varða veður, alþýðuskýringar og villugjörn ljóðmæli.

Meðalhiti
Meðalhitinn í mars var -1,6 gráður. Þetta er kaldasti mánuðurinn frá upphafi mælinga Veðurstofu Skagastrandar. Flestir nema ómálga börn muna þó annað eins.

Köldustu dagar mánaðarins voru 9. og 10. mars en þá var að meðaltali -6,7 gráður. Ekki munar þó miklu því ferlega kalt var að mestu frá 7. til 25. mars og eiginlega frost allan þennan tíma, frá einni gráðu og niður í tæpar sjö.

Sé litið framhjá meðaltalinu er nú ljóst að kaldast var á Skagaströnd rétt um 7:20 að morgni þess 12. Þá sýndi sjálfvirkur mælirinn -9,6 gráður.

Kaldast var samfellt aðfararnótt 12. mars og svo fram eftir morgni. Frostið var á milli -7 og tæplega 10 gráður.

Fróðlegt er að skoða línuritið hér sem fylgir með þessari frétt. Þar sést hvernig kuldakaflinn skiptist í tvo hluta. Fyrri hálfleikur hófst þann ellefta og entist fram yfir miðan dag þess sextánda. Þá kom smá hlé og hitinn klifraði upp í fjórar gráður og allir héldu að vorið væri komið.

Nei, ekki var það svo. Í seinni hálfleik féll mælirinn féll með látum og gaddurinn náði niður í rúmlega en sex gráðu frost. Þetta var frá morgni þess átjánda og fram yfir miðjan dag þess 28.

Já, þá kom vorið með semingi og styrkist það nú dag frá degi rétt eins og þegar víman rennur af fullum manni. 

Vindgangur
Loft flæddi með meiri meðalhraða um Skagaströnd en þekkst hefur frá upphafi mælinga, var 8,2 metrar á sekúndu (m/s). Þó muna flestir annað eins og margir telja kaldara í veðri þegar sama fer hvass vindur og mikið frost. Að mati Veðurstofu Skagastrandar þekkist slíkt víða og hafa til dæmis merkir útivistarmenn tekið eftir þessu, einnig bændur og aðrir þeir sem tíðum vinna utan dyra. Svo rammar eru þessar alþýðuskýringar á sambland vinds og frosts að jafnvel svokallaðir veðurfræðingar hafa skrifað um þær skýrslur og alkunnan sannleik að vísindum.

Þó hvasst hafi verið í mars má segja að vindgangurinn hafi farið minnkandi eftir því sem leið á mánuðinn. Endaði hann í lognkjurrum birtudögum síðustu fjóra daganna en smaug vorið inn eins og kunnugt er.

Hvassast var 14. og 15. mars eins og sjá má á meðfylgjandi línuriti. Þó var meðaltalið þann fjórtánda aðeins 16,8 m/s og 15,9 m/s daginn eftir. Í hviðunum rauk’ann upp í mest 22 m/s. Þetta þykir nú ekki mikið enda er búist við að ekki verði tiltakanlega hvasst í apríl. Veðurstofan ræður það af draumförum spakra Skagstrendinga. 

Vindáttir
Þó vindur hafi legið legið í suðlægum áttum allan mánuðinn var meðalhitinn aðeins -1,6 gráða. Það þýðir einfaldlega að ofan á skattahækkanir og margvísleg landsbyggðargjöld og álögur stjórnvalda fyrir sunnan kemur í þokkabót frost og hvassvirði frá suðvesturhorni landsins. Þykir Veðurstofu Skagastrandar nú tími til kominn að stemma stigu við þessum ófögnuði.

Vindrósin, á meðfylgjandi mynd, sýnir svo ekki verður um villst að’ann hefur legið meira eða minna í suðvestanátt allan mánuðinn. Iðulega syngja góðglaðir „Nú andar suðrið sæla vindum þýðum ...“ en vér á Skagaströnd segjum; Ei meir, nú er nóg komið af suðlægum vindgangi og samfarandi frosti

Nauðsynlegt er að geta þess hér að Veðurstofa Skagastrandar hóf starfsemi sína þann 8. nóvember 2010. Starfsmenn hennar eru nokkrir, einn sem les af sjálfvirkum mælum og hleður upplýsingum í Excel, tveir til þrír draumspakir sem vinna yfirleitt á nóttunni og nokkrir sem hlusta á tal manna í kaffistofum og ber upplýsingar í þann sem les af sjálvirkum mælum. Þannig fæst gleggri mynd af veðurfari á Skagaströnd en aðrar veðurstofur geta mælt og spárnar verða einnig afar ábyggilegar. Til dæmis má geta þess að í langtímaspá fyrir Skagaströnd er gert ráð fyrir að í sumar rigni sjaldan, sól skíni oft og hitastigið verði vel fyrir ofan frostmark.

Meðfylgjandi ljósmynd var send til Veðurstofu Skagastrandar frá veðurskipinu Bravó og sýnir vorið í upphafi apríl og hægra megin við það er brunahaninn sem er eitt gleggsta veðurviðmið á Skagaströnd.