Full kirkja á tónleikum Eivarar NÝJAR MYNDIR

Hvinur stormsins eða blíður andblær, lágvært öldugjálfur eða öskrandi öldurót, hjal ástarinnar eða tregi ástarsorgarinnar. 

Allt þetta og margt fleira mátti heyra og skilja  þegar hin frábæra færeyska söngkona  Eivör Pálsdóttir hélt tónleika í Hólaneskirkju á Skagaströnd sunnudagskvöldið 5. apríl fyrir troðfullu húsi áheyrenda.

Með Eivöru var þriggja manna hljómsveit, tveir samlandar hennar sem léku á ýmis hljóðfæri og finnskur trommuleikari.

Sú tónlist sem Eivör flutti er að mestu leyti frumsamin og þar mátti greina töluverð áhrif frá færeyskri tónlist og umhverfinu þar, fólkinu, fuglunum, veðurfarinu og landslaginu á heimaslóðum. 

Sérstæð túlkun hennar í söng og breitt raddsvið gerði þessa tónleika líka frábrugðna öðrum og myndaði sérstaka stemningu og hugblæ sem þakklátir áheyrendur nutu til fulls