Fullkomin rannsóknarstofa BioPol opnuð

Við teljum nauðsynlegt að afla meiri upplýsinga um auðlindir sjávar og jafnframt að standa að nýsköpun sem gæti leitt af sér ný sóknarfæri hvað varðar atvinnusköpun. Þetta tvennt  er einmitt meðal þeirra stefnumiða sem fyrirtækinu er ætlað að starfa eftir.

Þetta sagði Halldór G. Ólafsson, framkvæmdastjóri BioPol ehf. á Skagaströnd í ræðu sinni föstudaginn 23. apríl er fyrirtækið tók formlega í notkun nýja og fullkomna rannsóknarstofu. 

Fjölmenni var við vígsluna enda mikið um að vera á Skagaströnd þennan dag. Haldin var ráðstefna á vegum Fræðaseturs Háskóla Íslands og kynnt var starfsemi Nes listamiðstöðvar og Spákonuarfs.

Svar við breyttum aðstæðum

„Sjósókn og fiskvinnsla eru þær atvinnugreinar sem íbúar Skagastrandar hafa að mestu reitt sig á til lífsviðurværis í gegnum aldirnar. En síldin hvarf, rækjan, skelfiskurinn og kvótar í flestum fisktegundum hafa degist saman. Allt hefur þetta haft áhrif á Skagaströnd með beinum eða óbeinum hætti. 

Stofnun Sjávarlíftæknisetursins BioPol ehf. er að hluta til svar við breyttum aðstæðum. Við teljum nauðsynlegt að afla meiri upplýsinga um auðlindir sjávar og jafnframt að standa að nýsköpun sem gæti leitt af sér ný sóknarfæri hvað varðar atvinnusköpun. Þetta tvennt  er einmitt meðal þeirra stefnumiða sem fyrirtækinu er ætlað að starfa eftir.“

Ör vöxtur

Starfsemi BioPol ehf. hefur verið nokkuð fjölbreytt. Hér má nefna nokkur dæmi: 

  • Rannsóknir á hrognkelsum sem lúta bæði að atferli og líffræði tegunarinnar sem og nýjum nýtingarmöguleikum.  
  • Rannsókn sem miðaði að útbreiðslu og líffræði beitukóngs í Húnaflóa.
  • Rannsókn á fæðunámi sela er og vinna við vöktunarverkefni sem tengjast áhuga manna við Húnaflóa á kræklingarækt. 
  • Einnig hefur félagið fengið styrk til að gera athugun á sýkingarástandi hörpudisks í Húnaflóa. 
  • Ræktun og einangrun á smáþörungum úr sjó með framleiðslu á hágæða fiskiolíum og öðrum verðmætum efnum að markmiði. 

Góður stuðningur stórnvalda

Við segjum hér að Einar Oddur heitinn Kristjánsson hafi fyrstur skotið þessari hugmynd að okkur á vordögum 2007,“ sagði Adolf Berndsen, stjórnarformaður BioPol ehf. í ræðu sinni. 

„Jón Bjarnason var einnig mikill talsmaður þess að við horfðum til rannsóknarstarfsemi. Öflugur stuðningur Háskólans á Akureyri hefur skipt sköpum við uppbyggingu  BioPol frá upphafi. Rannsóknir og verkefni hafa frá byrjun miðast við öflugt samstarf við aðila innanlands sem erlendis. 

Á engan er hallað að nefna sérstaklega Hjörleif Einarsson prófessor við Háskólann á Akureyri sem hefur frá upphafi verið lykilmaður í þessu verkefni með okkur. Þorsteinn Gunnarsson þáverandi rektor sýndi einnig þessari uppbyggingu góðan stuðning.  

Þingmenn kjördæmisins með Einar Kristinn Guðfinnsson þáverandi sjávarútvegsráðherra í broddi fylkingar studdu á afgerandi hátt við hugmyndina, auk fleiri ráðherra.“