Fundur um atvinnutækifæri í ferðaþjónustu skilaði miklu

Gott fyrirtæki var sannarlega eitt sinn aðeins hugmynd. Þetta var meginmál ræðumanna á fundi um atvinnutækifæri í ferðaþjónustu sem haldinn var á Skagaströnd í síðustu viku.

Fundurinn var ætlaður sem hvatningafundur fyrir þá sem áhuga hafa á að hasla sér völl í ferðaþjónustu en vantaði upplýsingar. Nokkrir reynsluboltar voru ræðumenn og miðluðu fundargestum af þekkingu sinni.

Fundarboðendur voru Sveitarfélagið Skagaströnd, Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Markaðsstofa ferðamála á Norðurlandi og Ferðamálasamtök Norðurlands vestra

Fundinn setti Adolf Berndsen oddviti sveitafélagsins Skagstrandar. Hann ræddi um hvernig ferðaþjónustan hefði fengið byr undir báða vængi og eftir hrunið hefði orðið ákveðin hugarfarsbreyting. Á Skagaströnd hefði bæjafélagið eflst með því að  opinberum störfum hefur fjölgað en sterk innviði og öflugt samfélag er forsenda blómlegrar ferðaþjónustu. Hann nefndi uppbyggingu sem þegar hefði átt sér stað. Kántrýbæ skiptir miklu máli og Nes listamiðstöðin hefur bæst við. Listamenn sem þangað koma hafa fullyrt að hún hún standist þeirra væntingar og þá um leið að Skagaströnd hefur allt að bjóða sem gestir þurfa.

Skipulag ferðaþjónustu í Þingeyjarsýslum

EdwardH. Huijbens forstöðumaður rannsóknarseturs ferðamála við Háskólann á Akureyri sagði frá skipulagi ferðaþjónustunnar í Þingeyjarsýslum. Að verkefninu stóðu Ferðamálasetur Íslands og Rannsóknarstofnun ferðamála á Nýja Sjálandi fyrir Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga. Vinnan byggði á reynslu og vinnu sérfræðinga frá Kanada og Nýja Sjálandi.

Markmið stefnumótunarinnar var að greina möguleika til uppbyggingar á ferðaþjónustu til framtíðar út frá úttekt á því sem svæðið hefur upp á að bjóða. 

Úttektin var unnin í samvinnu við hagsmunaaðila og þarfir ferðaþjónustunnar til framtíðar greindar mjög ítarlega. Úttektin var unnin af íslenskum sérfræðingum en greining og kortavinna var í höndum erlendra sérfræðinga og byggði á reynslu þeirra frá ýmsum svæðum hvaðanæva úr heiminum. Í sameiningu unnu rannsakendur og hagsmunaaðilar stefnumótun til fimm ára, en áætlað er að vinnan verði endurtekinn að þeim tíma liðnum.

Landfræðilegum upplýsingakerfum (GIS) var beitt við úttekt og greiningu á ferðaþjónustu í Þingeyjarsýslum. Taldi Edward það afar mikilvægan þátt í verkefninu. 

Gögnum um einstaka staði, til dæmis fossa, byggðaminjar, sundlaugar, veitingastaði og vegaslóða var safnað í aðgreindar þekjur sem nýttust til að átta sig á þyrpingum ólíkra möguleika til uppbyggingar í framtíðinni. 

Þannig var þáttað saman nálgunum fræðimanna og hagsmunum atvinnugreinarinnar á máta sem er auðframsetjanlegur í kortum og myndum en jafnframt nýtist til frekari greininga. 

Landfræðilegi upplýsingagrunnurinn sem byggður var upp í Þingeyjarsýslum mun nýtast sem fyrirmynd í sambærilega gagnaöflunar og stefnumótunarvinnu á öðrum landssvæðum og getur að lokum orðið undirstaða landnýtingaráætlunar fyrir íslenska ferðaþjónustu. 

Edward fullyrti að mjög auðvelt væri að nota þessa skipulagsvinnu á Norðurlandi vestra og jafnvel á smærri svæðum eins og annarri hvorri Húnavatnssýslunni eða báðum. Þannig væri hægt að segja til um framtíðarhagsmuni á þessum slóðum og leggja til ítarlega uppbyggingu á ferðaþjónustunni.

Afþreying

Sigurður Sigurðarson markaðsráðgjafi Sveitarfélagsins Skagastrandar ræddi um afþreyingu og mikilvægi hennar í ferðaþjónustu. 

Hann lagði áherslu á að vilja núorðið frekar vera þátttakendur og gerendur en hlutlausir þiggjendur. Afþreying eykur líkurnar á því að ferðafólk dvelji lengir á hverjum stað, forsenda þess að þau kaupi ýmiskonar þjónustu sem er í boði. 

Sigurður nefndi að sumir teldu að á Norðurlandi vestra væri mikill skortur á „stórkostlegum náttúruminjum“. Það er einfaldlega rangt enda misjafnt hvað menn teldu vera stórkostlegt. Mikill munur er til dæmis á viðhorfi innlendra og erlendra ferðamanna í því efni. Hægt sé að byggja upp afþreyingu sem nýti náttúrufar hvers svæðis, nefna mætti menningartengdra ferðaþjónus. 

Hvalaskoðun

Ásbjörn Björgvinsson framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands ræddi um hvalaskoðun og upphaf hennar á Húsavík. Fyrir hafði ekkert umtalsvert væri en hún hefði breytt bænum og byggt upp ýmis konar aðra ferðaþjónustu. Hann ræddi um ströndina og sjóinn með áherslu á söguna, fugla og sjávarspendýr. 

Uppbygging ferðaþjónustufyrirtækja þarf að minnsta kosti þriggja ára reynslutíma og tryggt þjónustuframboð á meðan. Hann lagði áherslu á að búa þyrfti til vörumerki fyrir Norðuralnd vestra þar sem saman kæmi sýn, tilgangur og hvað er áhugavert. 

Spurningin er ekki endilega um fjölda heldur hvað þeir geri sem hingað koma og hve lengi þeir dvelja og ekki má gleyma mikilvægi heimamarkaðar en máli sýnu til stuðnings vísaði Ásbjörn í nýútkomna (október 2008) hliðarreikninga Hagstofunnar fyrir ferðaþjónustu. 

Sjóstangveiði

Haraldur Ingi ræddi um sjóstangveiði með eikarbátnum Niels sem lengi hefur gerður út frá Hauganesi á Árskógsströnd. Veiðin er yfirleitt góð, þorskur, ýsa, ufsi og steinbítur eru algengur afli. Veiðimönnum gefst líka kostur á viðkomu í Hrísey. Sjóstangaveiðin tekur um það bil þrjár klukkustundir og farið er daglega á tímabilinu maí til september, jafnvel í október. 

Haraldur fjallaði einnig um þau tækifæri sem felast í ferðaþjónustu tengdri sjónum og hvað læra mætti af reynslu þeirra. 

Mikil ástæða væri á að bjóða upp á heildsteypta ferðavöru sem byggð væri úr ólíkum þjónustuþáttum. Einnig má draga úr árstíðarvanda greinarinnar með fjölbreyttari notum, t.d. að báturinn sem gerður er út í ferðaþjónsutu nýtist einnig í hefðbundna útgerð eða jafnvel vöruflutninga. 

Mikilvægt er því að vera sveigjanlegur og geta lagað sig að því sem í boði er. Nauðsynlegt er að þekkja í þaula þá atvinnugrein sem ætlunin er að hasla sér völl í. Starfsmenn fyrirtækisins þekkja sjávarbotninn og mið um allan Eyjafjörð og með því geta þeir tryggt ánægju gesta. 

Gisting

Stefán Haraldsson atvinnuráðgjafi SSNV og stjórnarformaður Farfugla ræddi um skilgreiningar á gististöðum skv. reglugerðum og lýsti svo þjónustuframboði á farfuglaheimilum og helstu tölum. 

Stefán nefndi að mikill uppgangur væri í sölu gistirýma hjá Farfuglum og æ fleiri gistiheimili bættust í hópinn með hverju ári. Salan á þessu ári og síðasta ári hefur aldrei verið meiri. Hins vegar eru útlendingar um 85% af viðskiptavinunum.

Margir hafa ágætist afkomu af gistiþjónustu Farfugla og eru herbergin yfirleitt frá 16. Hann nefndi í því sambandi gistiheimili sem væri að stækka við sig upp í rúm fyrir 60 manns og er það staðsett langt frá alfaraleið og líkur benda til þess að aðsóknin verði framvegis ekki síðri en þegar það var með 20 rúm.

Mestu skipti að gestgjafinn fylgist vel með og taki persónulega á móti gestum sínum og hugsi vel um velferð þeirra.

Aðeins tvö farfuglaheimili eru á Norðurlandi vestra.

Gönguferðir

Kristján Eldjárn úr Svarfaðardal talaði um uppbygginu ferðaþjónustu á Húsabakka. Hann hefur nýtt umhverfi Svarfaðardals til gönguferða í samvinnu við Ferðafélag Íslands og fleirri aðila auk þess að bjóða heimamönnum upp á gönguferðir. Hann hefur lagt áherslu á að gera gönguferðir áhugaverðar með sögum sem nóg er af á þessum slóðum. 

Kristján segist hafa í upphafi haft litla þekkingu á gönguferðum en þekkingin hafi smám saman aukist. Hann leggur áherslu á að fara ekki með of stóra hópa svo leiðsögn hans nýtist en bætir við leiðsögumanni ef hópurinn er stór.

Menningatengd ferðaþjónusta

Örlygur Kristfinnsson framkvæmdastjóri Síldarminjasafnisins á Siglufirði lýsti uppbyggingu þess. Hann lagði áherslu á að í menningartengdri ferðaþjónustu væru áformin skýr og hugmyndir vel ígrundaðar svo auðveldara sé að afla fjár til verkefnisins. 

Örlygur nefndi að Síldarminjasafninu hafi verið mikilvægt þegar efnt er til viðburða í kringum uppbyggingu húsa. Það hafi hjálpað mikið til að vakið athygli á framkvæmdunum. 

Drifkraftur framkvæmda í hans tilfelli var ást á staðnum, þekking reynsla og áhugi á sögu bæjarins.

Í máli Örlygs koma skýrt fram að uppbygging Sildarminjasafnis hafi verið öðrum óskyldum ailum hvatning til að leggja stunda á ferðaþjónustu. Smám saman hafi henni aukist kraftur á Siglufirði og fjöldi fyrirtækja, lítilla og smárra risið upp.


Fundinum um atvinnutækifæri í ferðaþjónstu lauk með fyrirspurnum úr sal og kom í ljós mikill áhugi gesta á að fá meiri upplýsingar. 

Fundarstjóri var Jón Óskar Pétursson, framkvæmdastjóri SSNV. Í máli hans kom fram að samtökin ætla sér að halda áfram með hvatningarfundi í ferðaþjónustu. Innan þeirra eru starfandi nokkrir atvinnuráðgjafar sem getað starfað með þeim sem áhuga hafa á stofnun ferðaþjónustufyrirtækja á Norðurlandi vestra og er vinna þeirra öllum að kostnaðarlausu.

Samantekt þessa unnu Edward H. Huijbens og Sigurður Sigurðarson.