Fundur um hagleikssmiðjur fyrir handverksfólk

Handverksfólki á Norðurlandi vestra er boðið til fundar á Hótel Blönduósi, mánudagskvöldið 19. október kl. 20:00.

Á fundinum mun Ari Þorsteinsson, verkefnisstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar á Nýheimum á Höfn, kynna verkefnið Hagleikssmiðjur, sem nánar má lesa um hér að neðan.

Birna Kristjánsdóttir, sem nýlega tók við starfi sérfræðings í textílfræðum við Háskólasetrið á Blönduósi, mun segja frá starfi sínu og e. t. v. lauma einhverjum hugmyndum að fundargestum.

Að þessu loknu er gert ráð fyrir að viðstaddir taki upp þráðinn frá handverksfundinum í Kvennaskólanum í vor, varðandi eflingu samstarfs handverksfólks á Norðurlandi vestra.

Allir áhugasamir velkomnir.


Hagleikssmiðjur

Nýsköpunarmiðstöð Íslands á Hornafirði er þáttakandi í alþjóðlegu samstarfsverkefni Economuseum Northern-Europe, ENE. Verkefnið gengur út á að yfirfæra kanadískt viðskiptalíkan fyrir handverksfyrirtæki (economuseum) hér eftir kallaðar Hagleikssmiðjur, til landa Norður-Evrópu. Þátttökulönd fyrir utan Ísland eru Noregur, Norður-Írland, Írland, Færeyjar og Kanada. Kanadísku samstarfsaðilarnir þróuðu viðskiptalíkanið og eru tilbúnir til að miðla okkur af þekkingu sinni en sameiginlega er farið yfir hvernig best verður staðið að þekkingaryfirfærslunni. Hagleikssmiðju- viðskiptalíkanið hefur verið í þróun undanfarin 20 ár og í dag eru starfandi 50 slík fyrirtæki á austurströnd Kanada, starfsmenn eru um 500 talsins, heildarvelta þessara fyrirtækja er um þrír miljarðar og árlega fá þessi fyrirtæki um 700.000 heimsóknir.

Gert er ráð fyrir að ENE verkefnið taki þrjú ár og að í hverju þátttökulandi verði valin allavega tvö fyrirtæki til að þróa eftir viðskiptalíkaninu.

Þau fyrirtæki sem hafa verið valin til þátttöku á Íslandi er hönnunar fyrirtækið Gusta Design á Djúpavogi sem framleiðir töskur og fylgihluti úr fiskroði og hreindýraskinnum ásamt fiskvinnslufyrirtækinu Bestfiskur á Hornafirði sem framleiðir m.a. sólþurrkaðan saltfisk.

Verkefnið hefur fengið fjárhagslegan stuðning frá NORA Norræna Atlandsnefndinni og NPP Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins. Eins hafa alþjóðlegu Slow Food samtökin lýst yfir stuðningi við verkefnið.

Íslenskur stuðningshópur fyrir verkefnið samanstendur af Nýsköpunarmiðstöð Íslands á Hornafirði, Menningarmiðstöð Hornafjarðar, Þekkingarneti Austurlands, Handverk og Hönnun og Hönnunardeild Listaháskóla Íslands.

Markmið með Hagleikssmiðjum er að varðveita hefðbundið handverk, mæta þörfum samtímans fyrir menningar-, fræðslu- og ferðaþjónustu-afurðir og gera eigendur fyrirtækjanna fjárhagslega sjálfstæða.

Munurinn á Hagleikssmiðjum og öðrum handverksfyrirtækjum er að handverksfyrirtækin selja ákveðna vöru eða handverk á meðan Hagleikssmiðjan selur handverk, segir sögu þess, lýsir menningunni sem handverkið er sprottið úr og upplifuninni sem fylgir því að sjá vöruna verða til.

Hagleikssmiðja er einkafyrirtæki sem notar hefðbundna tækni eða þekkingu við framleiðslu á afurðum sínum, kynnir þekkingu sína og handverksmenn fyrir viðskiptavinum, hefur aðstöðu til vinnslu, sýninga og kynninga á vörunni og síðast en ekki síst þarf sala á vörunni á að standa undir rekstri fyrirtækisins.