Fyrstu Skagstrendingarnir á badmintonmót.

Eldsnemma á sunnudagsmorgni 23. janúar s.l. lögðu fimm ungir menn úr Umf. Fram hér á Skagaströnd af stað á “Gríslingamót ÍA” á Akranesi. Það þurfti að mæta á Akranes kl. 10,00 og keppnin átti að byrja kl. 10,30. Færðin var þokkaleg og því gafst tími til að skoða sparkvöllinn í Borgarnesi í leiðinni. Um leið var nestið borðað og spjallað um mótið framundan. Þessir ungu menn sem sjást hér á myndinni eru í 4 og 5 bekk Höfðaskóla. Þeir eru talið frá vinstri: Stefán Velemir, Unnar Leví Sigurbjörnsson, Elías Gunnar Hafþórsson, Sæþór Bragi Ágústsson og Guðjón Páll Hafsteinsson. Nokkrar ungar stúlkur á sama aldri úr Umf. Fram höfðu sýnt því áhuga að fara en af ýmsum ástæðum áttu þær ekki heimangengt. Þær fá tækifæri til að fara seinna. Mótið fór þannig fram að skipt var í 6 lið sem báru nöfn landa og þannig spiluðu allir 5 leiki. Hér er mynd af sigurliðinu “England” og þar má sjá Stefán. Með þátttöku sinni og framkomu opnuðu ungu mennirnir ýmsar dyr fyrir aðra Skagstrendinga. T.d. eru þeir foreldrar sem eru á ferð í Reykjavík með börn sín velkomnir með þau á æfingar fyrir byrjendur hjá TBR alla virka daga kl. 14-17. Aðeins þarf að segjast vera frá Skagaströnd og spyrja eftir Árna Þór. Börnin geta síðan tekið þátt í æfingunni eða horft á æfinguna. Badmintonæfingar eru á þriðjudögum í íþróttahúsinu. Tómstunda- og íþróttafulltrúi.