Glæsilegt Kántrýsetur opnað á Skagaströnd

Fjölmenni var við opnun Kántrýseturs í Kántrýbæ síðasta laugardag og mikið um dýrðir. Á Kántrýsetrinu er sýning þar sem hægt er að finna mikinn fróðleik um lífshlaup og feril Hallbjörns Hjartarsonar og kántrýtónlist á Íslandi.

Leikmynda- og sýningahönnuðurinn Björn Björnsson setti upp sýninguna í samstarfi við rekstraraðila Kántrýbæjar, þau Svenný Hallbjörnsdóttur og Gunnar Halldórsson. 

Björn sagði að söfnun efnis, hönnun og uppsetning sýningarinnar hefði tekið um eitt ár og er hann ánægður með útkomuna. 

Framkvæmdastýra verksins var útvarpskonan Margrét Blöndal og sá hún um að safna saman efni og upplýsingum og koma á sýningarhæft form í samvinnu við Björn.

Á opnunarhátíðinni, þar sem fram komu landsþekktir listamenn eins og Magnús Kjartansson og Björgvin Halldórsson ásamt fleirum, voru setrinu færðar gjafir og styrkir. 

Í þakkarávarpi sínu sagði Hallbjörn, sem nýlega átti 76 ára afmæli, að sig hefði ekki órað fyrir að hann ætti eftir að upplifa þann draum sinn að sjá safn eða sýningu sem þessa verða að veruleika. Hann sagðist vera snortinn og hræður yfir þeim heiðri sem sem sér væri sýndur með sýningunni og þakkaði öllu því góða fólki sem gert hefði þetta mögulegt. Jafnframt sagðist hann vona að sýningin á setrinu yrði fólki til ánægju og gleði og ungum sem öldnum hvatning til átaka á listasviðinu – ekki síst í kántrýtónlistinni.

Að loknum ávörpum og stuttum tónleikum, þar sem þau Björgvin Halldórsson, Selma Björnsdóttir og Heiða Ólafsdóttir fluttu uppáhaldslögin sín eftir Hallbjörn við undirleik hljómsveitar undir stjórn Magnúsar Kjartanssonar, klippti síðan Hallbjörn á borða og opnaði þar með Kántrýsetrið formlega. 

Um kvöldið þegar gestir höfðu haft tækifæri til að skoða sýninguna, sem er mjög umfangsmikil og er á öllum veggjum Kántrýbæjar á báðum hæðum, voru síðan tónleikar með fyrrgreindum listmönnum. 

Dagurinn endaði síðan með dúndrandi kántrýballi í boði Kántrýbæjar eins og aðrir viðburðir dagsins.

Ólafur Bernódusson, frétt úr Morgunblaðinu 15. júní 2011.