Gleðibankinn með tónleika í Kántrýbæ

Gleðibankinn býður nú upp á skemmtun í Kántrýbær miðvikudagskvöldið 12. janúar kl. 20:30. Gleðipinnar kvöldsins verða þeir Svavar Knútur Kristinsson, söngvaskáld, og Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, skáld og tónsmiður.

Á tónleikunum flytja þeir frumsamið efni í tónum og tali eins og þeim einum er lagið. 

Þeir félagar hafa starfað saman um árabil, m.a. í barnadagskránni Karímarímambó, en einnig hafa þeir samið og flutt dagskrá um skáldið Stein Steinarr í grunnskólum víða um land við mjög góðar undirtektir.

Á tónleikunum á Skagaströnd verður efnið fjölbreytt að vanda, en yrkisefnin snúast að mestu um hina mannlegu tilveru, hamingjuleitina og fleira í þeim dúr og moll.

Svavar Knútur sendi fyrir skemmstu frá sér geisladiskinn Ömmu með þekktum íslenskum sönglögum og hlaut lofsamlega dóma fyrir. Áður hafði hann gefið út Kvöldvöku, sem er eingöngu með frumsömdu efni. 

Nefna má að lagið Draumalandið, lag Sigfúsar Einarssonar, er á disknum Ömmu og hefur verið mikið leikið á útvarpsstöðvum undanfarna mánuði og hefur náð miklum vinsældum.

Hann hefur gert víðreist og komið fram á fjölda tónleika hérlendis og erlendis á undanförnum misserum og verið í spennandi samstarfi við trúbadúra víða um heim. 

Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson hefur um langt árabil starfað með ýmsum tónlistarmönnum, bæði hér heima og á Norðurlöndum, auk þess að vera vel þekkt ljóðskáld og barnabókahöfundur. 

Af nýjustu verkum hans má nefna Sálma á nýrri öld í samstarfi við Sigurð Flosason og ljóðabækurnar Segðu mér og segðu ... og Hjartaborg, að ógleymdum rómuðum þýðingum hans á söngljóðum eftir sænska vísnaskáldið Cornelis Vreeswijk.

Aðgangur að tónleikunum er aðeins kr 1.000 og er fólk hvatt til þess að mæta og hlýða á skemmtilega dagskrá.