Goðamót

Það voru hressir og kátir strákar frá Skagaströnd sem lögðu af stað á Goðamót á Akureyri föstudaginn 23.mars síðastliðinn.  Goðamót er stórt fótboltamót þar sem fótboltamenn framtíðarinnar leiða saman krafta sína. Að þessu sinni voru þátttakendur frá Skagaströnd á aldrinum 8-10 ára. Skemmst er frá því að segja að helgi þessi var hin skemmtilegasta. Strákarnir stóðu sig allir með miklum sóma og voru ávalt Skagaströnd og Skagstrendingum til mikils sóma. Talað var um að þarna færi afskaplega prútt og kurteist lið.  Baráttan á vellinum var oft á tíðum mjög hörð, ákafinn og viljinn mikill en okkar menn nutu styrkrar stjórnar þjálfara síns Ágústs Inga Ágústssonar. Í keppninni var á brattan að sækja fyrir okkar menn en þeir gerðu alltaf sitt besta og meira er ekki hægt að fara fram á. Strákar nú er bara að drífa sig á sparkvöllinn til að æfa fyrir næsta ár.

 

Stjórn U.M.F Fram