Gönguferð um Hornstrandir, síðasti skráningardagur

Skagstrendingar ætla í gönguferð um í júlí. Það er Labbitúrafélag Skagstrandar sem stendur fyrir ferðinni og er öllum heimil þátttaka, jafnt heimamönnum sem öðrum. 

Síðasti dagur skráningar í Hornstrandaferðina er í dag, 28. júní 2010.

Hvenær
Mæting miðvikudaginn 21. júlí kl. 9:30 í Norðurfirði á Ströndum. Komið verður til baka mánudaginn 26. júlí. 

Hvert? 
Sigl verður í Hornvík, gist þar í tvær nætur. Síðan er siglt í Reykjarfjörð og gist þar í þrjár nætur. Alltaf er gist í tjöldum.

Hvað? 
Gönguferð og sigling um marga af tilkomumestu og fegurstu stöðum Íslands. Siglt er meðfram svipmiklu landslagi, gengið um Hornbjarg, yfir í Hælavík litið á Hælavíkurbjarg, gengið á Geirhólma, um Þaralátursnes og jafnvel á Drangajökul. Í Reykjarfirði er sundlaug og sturtur. 

Hvernig
Alltaf er gengið með dagpoka, þ.e. með nesti fyrir daginn og góðan skjólfatnað. Hægt er að sleppa einstaka gönguferðum, slappa þá af í stórkostlegri náttúru. Á kvöldin verður vonandi haldin kvöldvaka. Stefnt er að því að vera með samkomutjald í ferðinni svo hægt sé að halda kvöldvökur þó veðrið verði ekki kannski upp á það besta.
 
Hverjir? 
Nánari upplýsingar og skráningu í ferðina er hjá Lárusi Ægi Guðmundssyni, í síma 864 7444, og Sigurði Sigurðarsyni í síma 864 9010, en hann verður fararstjóri og þekkir vel til á Hornströndum. 

Meðfylgjandi myndir eru teknar á Hornströndum:
  1. Efsta myndin er  af Núpnum, fremst á Hornbjargi
  2. Næsta mynd er af Hælavík
  3. Þriðja myndin er frá tjaldsvæðinu í Hornvík
  4. Kortið er af siglingaleiðinni milli Norðurfjaðar og Hornvíkur