Gott veður á Skagaströnd í febrúar

Ekki er hægt að kvarta undan veðurlagi á Skagaströnd í vetur. Það sanna tölur frá hinni óopinberu veðurstofu sveitarfélagsins sem sett var á laggirnar til að staðfesta megi með rökum að óvíða er veður betra. 

Hiti
Meðalhiti á Skagströnd í febrúar mældist 1,4 gráður. Hæst fór hitinn í 9,8 gráður þann 11. febrúar kl. 14:50. Raunar var mjög hlýtt allan þann dag, meðalhitinn var 7,5 gráður og 5 gráður daginn eftir. 

Kaldast var fyrri hluta mánaðarins og var frost alla átta fyrstu daganna. Lægst fór hitinn í -6,3 gráður þann 8. febrúar um kl. 2 um nóttina. Hélst frostið þá í um sex gráður en hjaðnaði eftir því sem leið á morguninn. Um hádegið var hitastigið komið upp í frostmark. Það sem eftir lifði mánaðarins frysti að vísu af og til en meðaltalið hélst þó alltaf yfir frostmarki.

Vindur
Vindgangur á Skagaströnd var með hóflegra móti, aðeins 6,7 metrar á sekúndu (m/s) að meðaltali sem er þó aðeins minna en í janúar en þá var meðaltalið 9 m/s. 

Auðvitað hvessti hressilega í febrúar. Hraðast fór vindurinn yfir sviðið á 21 m/s og gerðist það í tvígang, þann 3. og 21 febrúar. Þetta má glögglega sjá á meðfylgjandi línuriti og eru einkennin fimm hámörk. Á eftir þeim lægði, rétt eins og allur vindur væri úr máttarvöldum. 

Þá ályktun má draga af línuritinu að sjaldnast er hvasst í langa tíma í einu, aldrei marga daga. Þegar lægir minnkar dregur jafnt og stöðugt úr vindi uns nóg virðist komið og þá eykst vindhraði aftur á svipaðan hátt uns hámarki er náð. 

Þegar á allt er litið má eflaust halda því fram að vindur undir 10 m/s sé ekki sem verstur en vaxi hann umfram það leiðist mörgum útiveran.

Vindáttir
Suðlægar vindáttir voru ríkjandi á Skagaströnd í febrúar. Þetta sést best á meðfylgjandi vindrós. Hún sýnir hvernig hreyfing á vindi dreifist á áttirnar. Til að skýra nánar út hvernig þetta þróaðist í mánuðinum er gott að skoða meðfylgjandi töflu um hlutfall ríkjandi vindátta:

Vindátt Hlutfall
Norður       6,1%
Norðaustur       9,9%
Austur     22,0%
Suðaustur     16,6%
Suður     20,3%
Suðvestur     20,7%
Vestur       2,6%
Norðvestur       1,7%

Í ljós kemur, eins og gjörla sést á vindrósinni, að aust- og suðlægar áttir voru algengastar. Norðaustanáttin er ekki í hávegum höfð á Skagaströnd og hún lét lítið á sér kræla, rétt eins og hún fyndi fyrir óvildinni.

Samanburður
Veðrið er lítt skemmtilegt til umræðu ef ekki væri fyrir samanburðinn. Þess vegna er ekki úr vegi að skoða hvað systurstofnunin Veðurstofa Íslands segir um febrúarveðrið. Sú stofnun hefur lengi langt fyrir sig veðurathuganir og þykir bara nokkuð ábyggileg á sínu sviði, sérstaklega hvað varðar athuganir á liðnum tíma, en lakari með spár, sérstaklega langtíma. Af handahófi grípum við hitatölur frá nokkrum stöðum.

Staður Hiti
Stórhöfði            3,4
Höfn í Hornafirði    2,8
Reykjavík            2,1
Skagaströnd    1,7
Stykkishólmur    1,3
Bolungarvík    0,9
Egilsstaðir            0,3
Akureyri            0,1
Hveravellir        -3,9

Af þessum tölum má draga þá ályktun að kaldara er á austanverðu Norðurlandi en á því vestanverðu. Hitastigið er svipað á Reykjavík, Stykkishólmi og Skagaströnd.
Hitinn á Skagaströnd er líklega í rökréttu samhengi við aust- og suðlægar áttir sem voru ríkjandi í febrúar.