Hafgeir HU 21 með metafla.

Hraðfiskibáturinn Hafgeir HU 21 kom að landi í dag mánudaginn 20. október með 7,5 tonn af þorski. Hafgeir sem er 6 brúttótonn var einungis um 12 klst. í róðrinum og fékk aflann á 15 bala af línu. Aflinn var nær eingöngu boltaþorskur og sem dæmi má nefna að einungis um 150 kg fór í undirmál. Eigandi Hafgeirs HU 21 er Sævar R. Hallgrímsson. Ekki fékkst upp hvar í Húnaflóanum hann hafði lagt línuna þegar þessi afli fékkst. Línubátar sem gerðir eru út frá Skagaströnd eru nú um 10 og hafa aflað ágætlega þegar gæftir hafa verið.