Happadráttur strandveiðimanns

Í Morgunblaðinu í morgun er sagt frá sannkölluðum happadrætti. Ólafur Bernódusson fréttaritari blaðsins á Skagaströnd skrifar fréttina og tók meðfylgjandi mynd:

Guðmundur Þorleifsson, strandveiðimaður á Fannari SK11, datt heldur betur í lukkupottinn þegar hann setti í stórlúðu á miðunum norður af Skaga. Lúðan vó 163 kg slægð þannig að fullyrða má að hún hafi verið a.m.k. 175 kg þegar hún beit á krókinn hjá Guðmundi.

„Sem betur fer var hún frekar róleg en það tók nú samt tvo og hálfan tíma frá því hún kom á, þangað til ég var búinn að koma á hana spotta og binda við bátinn. Það var ekki möguleiki að ég næði henni einn inn fyrir. Ég var skíthræddur allan tímann að missa hana því hún hékk á einum krók í kjaftvikinu og hann var farinn að réttast upp,“ sagði Guðmundur um viðureign sína við lúðuskrímslið. Eftir að hafa komið böndum á lúðuna hætti Guðmundur veiðum og stímdi í land á rúmlega hálfri ferð.

Yfirleitt eru þeir tveir á Fannari, Guðmundur og faðir hans, en í þessum túr var Guðmundur einn því faðir hans var að fylgja vini sínum til grafar. Guðmundur kvaðst vera viss um að hann hefði orðið var við lúðuna á sama stað daginn áður því þá kom einhver fiskur á færið hjá honum og sleit það með það sama. Það kom svo í ljós þegar lúðan var slægð að í maga hennar voru tveir færakrókar þannig að líklega er þetta rétt hjá honum. Í maganum voru líka tvær hálfmeltar smálúður þannig að stórlúður virðast ekki hika við að éta ættingja sína ef svo ber undir.

Lúðan var seld á fiskmarkaðnum og fengust um 1.100 krónur fyrir kílóið.