Heimferðin stutt, örugg og án pissustoppa

Í gærkvöldi hélt Karlakórinn Heimir tónleika í Hólaneskirkju. Þeir heppnuðust afar vel og áheyrendur voru afskaplega ánægðir að þeim loknum. Hins vegar hefði aðsóknin mátt vera betri.

Á heimasíðu Karlakórsins er eftirfarandi frétt um tónleikanna:

Tónleikar í Hólaneskirkju á Skagaströnd eru afstaðnir. Húnvetningar tóku okkur merkilega vel og viljum við þakka þeim kærlega fyrir góðar viðtökur.  Þar sem "æfingaferðin" suður á land heppnaðist vonum framar treystum við okkur til að bjóða þeim upp á svipaða dagskrá. Því miður átti Jón Þorsteinn ekki heimangengt til að spila með okkur en hróður hans fer víða því að ágætlega seldust diskarnir hans í hléi.

Það er gott að syngja í Hólaneskirkju og kunnugir höfðu orð á því að kórinn fyllti vel upp í rýmið. Lög eins og Ár vas alda og karlakórslögin; Þér Landnemar og Úr útsæ skiluðu sér af fullum þunga. Einnig naut fólkið þess vel þegar við hvísluðum okkur gegnum Linditréð og Í Fögrum Dal. Ari Jóhann fékk þó bestu viðtökurnar í einsöngslögunum, enda er karlinn í fantaformi þessa dagana, eftir að hann rakaði af sér skeggið ...  

Gunnar kynnir var óvenju hógvær fyrir hlé, enda kom það í ljós að hann hafði gleymt að hafa með sér gleraugum á svið. Eftir hlé sótti hann heldur í sig veðrið og skemmti fólki með vísum og sögum tengdum dagskránni.   Sem betur fer eru raddfélagar hans í 2. bassa komnir með eftirlitskerfi á karlinn og er Árni á Uppsölum ábyrgur fyrir því að halda aftur af honum.  Hirting kvöldsins var eftirfarandi vísa:

Gunnar malar og malar
magnaður lopann að spinna
Endalaust talar og talar
ég trúi honum minna og minna

Lokalagið var Pílagrímakór Wagners.  Nokkur aukalög áttum við í handraðanum, sem öll féllu í góðan jarðveg.

Heimferðin var stutt, örugg og án pissustoppa!

Kórinn kemur næst fram á Sæluvikutónleikum í Miðgarði með Karlakórnum Stefni frá Mosfellsbæ.