Heimsókn bandaríska sendiherrans

Bandaríski sendiherrann, Luis E. Arreaga, kom í heimsókn til Skagastrandar 18. júní 2012 ásamt eiginkonu sinni Mary og dótturdótturinni Elenu. Sveitarstjórn hafði boðið sendiherranum formlega að koma í heimsókn til að kynna sér atvinnulíf, menningu og mannlíf á Skagaströnd en þó ekki síst til að kynnast Kántrýsetrinu, Kántrýbæ og þeirri tilhöfðun til bandarískrar menningar sem þar hefur þróast.

Auk þess að skoða Kántrýbæ og hitta Kúreka norðursins fékk sendiherrann og fylgdarlið hans kynningu á Rannsóknarsetri HÍ, BioPol, Fiskmarkaði Íslands, Spákonuhofi, Nes – listamiðstöð, Hólaneskirkju og Greiðslustofu Vinnumálastofnunar. Allsstaðar voru góðar viðtökur við sendiherranum og veittar upplýsingar og tekin umræða um verkefni, störf og stefnur. Sendiherrahjónin, sem bæði eru sérstaklega góð viðkynningar, voru mjög áhugasöm um allt sem til umfjöllunar var og sýndu Skagaströnd mikinn áhuga.

Í bloggi sendiherrans kemur einnig fram hans sýn á heimsóknina: http://ambassadorblogiceland.blogspot.com/2012/06/skagastrond-nice-blend-of-science.html