Heimsókn breska sendiherrans

Ian Witting, sendiherra
Ian Witting, sendiherra

Breski sendiherrann á Íslandi Ian Witting kom í heimsókn til Skagastrandar fimmtudaginn 23. júní sl. í boði sveitarstjórnar. 

Í heimsókninni fór sendiherrann á nokkra staði og skoðaði atvinnulíf og menningu á Skagaströnd. Eftir ágætan morgunverð með fulltrúum sveitarstjórnar í Kaffi Bjarmanes var litið inn í þekkingarsetrið þar sem starfsemi BioPol var kynnt, heilsað upp á menningarfulltrúann og skoðað tilvonandi fræðibókasafn undir leiðsögn forstöðumanns Fræðaseturs Háskóla Íslands. 

Sendiherrann leit einnig við á höfninni og fékk útlistun á starfsemi Fiskmarkaðar Íslands. 

Í Spákonuhofi tóku á móti honum hinar forvitru spákonur og sýndu honum hvernig hof Þórdísar spákonu mun taka á móti gestum. 

Í Árnesi fékk hann svo örlitla innsýn í húsakynni og búshöld liðinna kynslóða. Hádegisverður í Kántrýbæ var einstakur og setti nýtt viðmið um gæði íslensks lambakjöts. Ekki spillti að skoða uppstillingu á sýningu um æfi og starf kántrýkóngsins sjálfs á eftir. 

Í Nes listamiðstöð sýndu 11 listamenn verk sín þar sem sköpunarkrafturinn hefur greinilega verið góður í kulda júnímánaðar því sýning þeirra á opnu húsi er með þeim betri sem boðið hefur verið upp á. 

Sendiherrann heimsótti svo kirkjuna þar sem hann fékk að njóta tónlistar fram borinni af Hugrúnu Sif og Jóni Ólafi sem fluttu íslensk vöggulög. 

Þrátt fyrir mikið annríki á greiðslustofu Vinnumálastofnunar, svona rétt fyrir mánaðarmót, voru viðtökur þar góðar og vakti sendiherranum nokkra undrun hve öflugur hópur þar var greinilega að störfum. 

Í lok dags var sest yfir kaffihlaðborð í Kaffi Bjarmanes þar sem þeir komu saman sem áttu mestan þátt í dagskránni og fóru yfir stöðuna á Skagaströnd jafnt og heimsmálin yfirleitt. 

Sendiherrann sem hafði verið hrókur alls fagnaðar allan daginn var síðan kvaddur með dúndrandi fallbyssuskoti.