Helstu niðurstöður íbúaþings

Fimmtudaginn 7. mars sl. var haldið íbúaþing á Skagaströnd þar sem það var sett að markmiði að fá fram viðhorf íbúa til nokkurra grundvallaratriða. Jafnframt var það markmið með þinginu að auka aðgengi almennings að ákvarðanatöku í samfélaginu.

Á þinginu var unnið í hópum undir stjórn starfsmanna SSNV þar sem leitað var eftir hugmyndum og tillögum fundarmanna um málefni sem varða framtíðarsýn íbúa í atvinnumálum og almennri byggðaþróun sveitarfélagsins.

Á þinginu voru lagðar fram eftirfarandi spurningar sem unnið var úr í nokkrum hópum:

·         Hvað gerir Skagaströnd aðlaðandi?

·         Hvernig viljum við sjá Skagaströnd eftir 10 ár?

·         Hver eru helstu atvinnutækifærin?

Undir styrkri stjórn starfsmanna SSNV, sem stýrðu hópunum, voru fyrrgreindar spurningar ræddar og bæði svör og hugmyndir tekin saman til frekari úrvinnslu.  

Nú liggur fyrir fyrsta samantekt á því efni sem varð til á íbúaþinginu og er aðgengilegt hér.

Áfram verður unnið með niðurstöður þingsins á vettvangi SSNV atvinnuþróunar og farið betur yfir flokkun og leitast við að samræma og einfalda niðurstöður. Að lokum er síðan gert ráð fyrir að niðurstöður verði teknar saman í skýrslu.