Hin árlega skötuveisla í Fellsborg

Á myndinni eru þeir sem stóðu að skötuveislunni í ár; 

Björn Sigurðsson, Guðmundur Henrý Stefánss…
Á myndinni eru þeir sem stóðu að skötuveislunni í ár;

Björn Sigurðsson, Guðmundur Henrý Stefánsson, Bárður Eyþórsson, Guðmundur Finnbogason, Elvar Geir Ágústsson, Sigurbjörn Björgvinsson, Jónas Þorvaldsson, Ágúst Ómarsson og Árni Sigursson.

Hin árlega skötuveisla var haldin í Fellsborg á Þorláksmessu. Skötuveislan var opin öllum og var í boði Fisk Seafood en skipulag og framreiðslu sáu togarasjómenn flotans um, fyrrverandi og núverandi og ber þeim öllum að þakka fyrir það.

Að vanda var fjölmenni en gróflega er áætlað að um 200 manns hafi mætt og gætt sér á hinum ýmsu kæstu krásum, já eða saltfisknum sem svíkur engann, kartöflur, rúgbrauð, hamsatólg eða hnoðmör fyrir þá vandlátu. Eftir matinn var boðið upp á kaffi og konfekt.

 

Skötuveislan hefur skapað sér sterka og skemmtilega hefð sem fæstir vilja vera án. Hefð sem hefur haldið sér frá árinu 1968 eða í 55 ár þegar skötuveislan byrjaði í togskipum Skagstrendings en þar sáu yfirmenn togaranna um skipulagninguna og komu þar saman sjómenn og fjölskyldur þeirra. Með árunum fjölgaði matgestum og árið 1975 var hún færð í skátabragga og endaði á að ásóknin var svo mikil að ákveðið var að færa hana í félagsheimilið Fellsborg um 1980, þar sem hún hefur verið síðan þá. Þegar mest var mættu um 350 manns í mat en til eru gestabækur frá upphafi.

Í þessi 55 ár hefur einn maður staðið vaktina í skötuveislunni öll árin en það er skipstjórinn Árni Sigurðsson og eigum við honum mikið að þakka. Einnig má þakka honum Gunnari Reynissyni, fyrrum kokki á Arnari HU sem stóð kokkavaktina í skötuveislunni frá 1978 þar til 2019.