Hirðing brotamálma

 

Ágætu Skagstrendingar.

 

Nú stendur yfir átak í hreinsun brotamálma. Mjög víða er að finna ýmsa málmhluti sem hafa lokið hlutverki sínu og nýtast best sem endurunnin málmur í nýja hluti. Til þess að svo megi verða þarf að koma þeim í endurvinnslu. Héraðsnefnd hefur gert samning við Hringrás ehf. um brottflutning allra brotamálma af svæðinu til endurvinnslu. Sérstakt átak er gert til að mögulegt verði að ná sem bestri hagkvæmni út úr því verkefni. Við leitum því eftir samstarfi við ykkur um hreinsun á brotamálmum bæði stórum og smáum og biðjum ykkur að koma þeim á söfnunarsvæðið í gryfjunum á Fellsmelum.

Sérstök ástæða er til að minna á ónýta bíla sem finna má nokkuð víða um bæinn. Talning á númerslausum bílum innan þéttbýlismarka hefur gefið vísbendingu um allt að 50 óskráða bíla á staðnum. Mögulegt er að fá 15 þús. króna endurgreiðslu ef bílar eru skráðir ónýtir og þeim skilað til endurvinnslu. Skrifstofa Höfðahrepps gefur út kvittun fyrir afskráningu slíkra bíla gegn framvísun skráningarskírteina eftir að þeim hefur verið komið í brotajárn í samráði við starfsmenn sveitarfélagsins.

Þá er ástæða til að minna á að heilbrigðisfulltrúi getur látið fjarlægja slíkar bifreiðar á kostnað eigenda ef þær eru orðnar ónýtar og taldar til óþrifnaðar.

 

Skagaströnd, 29. nóvember 2006.

Sveitarstjóri