Hitabylgja á frábærum Kántrýdögum

Kántrýdögum á Skagaströnd lauk á sama máta og þeir byrjuðu, með mikilli gleði og ánægju. Fjöldi aðkomufólks heimsótti bæinn, sem skreyttur var á margvísleg lund og stuðlaði ásamt heimamönnum að frábærri skemmtun sem var öllum til sóma.  

Veðrið var stórkostlegt um helgina, koppalogn, gekk á með sólarglennum og hlýjum rigningarskúrum í 15 til 20 gráðu hita. Á laugardagskvöldið mældist t.d. hitinn um miðnætti 17 gráður. 

Kántrýdagar hófust með fallbyssuskoti klukkan 18 á föstudeginum. Yngsti aldurshópurinn, sem kallar sig, Smábæinga, buðu á Kofavöllum upp á opið hús, en þeir hafa verið að byggja kofa í sumar af öllum stærðum og gerðum. Gestir fengu kökur og drykki og svo skemmti brúðubíllinn. Ekki þótti börnunum lakara þegar flugvélin kom og bjó til Freyjukaramelluregn. 

Á föstudagskvöldið var mikill fögnuðu og læti í hátíðartjaldinu þegar hljósmveitirnar Janus og The 59’ers þöndu raddbönd og hljóðfæri. Síðar um kvöldið gerðu Skagstrendingar og gestir þeirra slíkt hið sama við varðeldinn og var atburðurinn nefndur „hólasöngur“ vegna staðsetningarinnar.

Á laugadagsmorgni var farið í Þórdísargöngu á vegum Menningarfélagsins Spákonuarfs og gengið á Spákonufell. Þórdís bjó að Spákonufelli fyrir rúmlega eitt þúsund árum og eru margar sögur af henni og fjölkyngi hennar en ekki er vitað hvort hún tók þátt í göngunni. 
Börnin fóru í dorgveiðikeppni, á töfrabragðanámskeið og loks var barna- og fjölskylduskemmtun í hátíðartjaldinu þar sem hæfileikaríkir krakkar nutu tilverunnar og hrifu áhorfendur með göldrum sínum og tónlist í söngvakeppni barna - Kántrýhvolpunum.

Um kvöldið var aftur dagskrá í hátíðartjaldi þar sem fram komu Valdi Skafta og Rún, Elli Gunni, karlakórinn Bryggjupollar, blúshljómsveitin Spottarnir, Lára Rúnarsdóttir og Bjartmar og Bergrisarnir.
Fastur liður á Kántrýdögum er messa  í hátíðartjaldinu. Sóknarpresturinn, Úrsula Árnadóttir, þjónaði. Af mikilli innlifun söng kirkjukórinn gospelsöngva undir stjórn Óskars Einarssonar og var það mál mann að aldrei hafi kórinn hljómað jafn vel. Í gospelmessunni voru systurnar Guðrún og Hjördís Sigurðardætur heiðraðar fyrir áralangt starf í kirkjukór Hólaneskirkju en þær hafa starfað þar með litlum hléum frá stofnun kórsins 1953.
 
Á laugardagskvöldi hélt Viggó B. útgáfutónleika Fellsborg vegna nýútkomins hljómdisks og gömlu dansarnir dunuðuð við harmonikuspil.

Böll í Kántrýbæ eru fastur liður á Kántrýdögum. Á fimmtudagskvöldið hitaði hljómsveit heimamanna upp en sú nefnist Suðmenn. Hljómsveitin Janus steig síðan á stokk á föstudagskvöldið og loks Bjartmar og Bergrisarnir á laugardagskvöldið. 

Tónleikar voru í kaffihúsinu Bjarmanesi. Ragnheiður Gröndal lék þar með hljómsveit sinni á föstudagskvöldið og síðar um kvöldið léku Langi Seli og Skuggarnir. Á laugardeginum  söng og spilaði hljómsveitin Spottarnir lög eftir sænska vísnaskáldið Kornelíus Vreesvjiik. Og um kvöldið sungu Cohen systur lög Leonard Cohens. Ekki má gleyma kaffihlaðborðinu sem boðið var upp á í Bjarmanesi eftir messu á sunnudeginum.

Einna mesta athygli vöktu spákonurnar sem upplýstu gesti og gangandi um framtíðina. Þær spáðu í forláta spátjaldi við hátíðarsvæðið og einnig í gamla húsinu Árnesi. Fjöldi fólks leitaði til spákvennana og ekki er annað vitað en að allir hafi unað við sínar spár.

Kántrýdagar fóru afar vel fram og varð ekkert til að trufla afar góða skemmtun. Skagstrendingar þakka gestum fyrir komuna og vonast til að sjá þá aftur að ári.