Hitaveita, björt framtíð.

 

Ég var að  koma heim af kynningarfundi Rarik um hitaveituna okkar,  þar komu margar málefnalegar og góðar spurningar fram og ég sem sveitarstjórnarmaður er ánægð með að fólkið í samfélaginu er gagnrýnið og málefnalegt.  En einhvernvegin kom sú tilfinning upp hjá mér að mig langaði að segja fólki hver mín hugsun væri í sambandi við hitaveituna.

 

Á undanförnum mánuðum hefur mikið púður farið í pælingar um  lagningu hitaveitu til Skagastrandar, ég sem sveitastjórnarmaður tók ákvörðun um að leggja allan minn stuðning við verkefnið „hitaveita á Skagaströnd“ og styrkist í trú minni á verkefninu með hverjum degi.  Eins og eðlilegt er hefur skapast mikil umræða um hitaveitu á ýmsum stöðum í okkar frábæra samfélagi og ekkert nema gott um það að segja.  Það er auðvitað eðlilegt og sjálfsagt að hver og einn hugsi sitt ráð og sínar lausnir í lífinu.  Sumir nálgast málið út frá þeirri hugsun hve lengi þeir ætli sér að búa hérna eða hvort þeir getir reiknað arðsemi af verkefninu fyrir sitt heimili.  Aðrir hugsa lengra og velta fyrir sér möguleikum barna sinna og barnabarna.  Aðstæður fólks eru mismunandi og engin ein leið eða eitt svar er lausn fyrir alla.

 

Sveitarfélagið og þar með sveitarstjórnin verður hins vegar að hugsa um heildina og í lengri tímabilum.  Fólk kemur og fer en byggðin er á sama stað og verður áfram.   Við viljum að hún þróist og styrkist eins og kostur er þannig að eftir 50 eða 100 ár verði áfram grundvöllur byggðar.  Við byggjum á dugnaði og framsýni þeirra sem á undan gengu og þeir sem á eftir koma eiga að taka við betra búi en við.  Það er eðlileg þróun samfélagsins.

 

Ég kem frá Blönduósi og því alin upp við hitaveitu.  Ég man að það var mikil breyting fyrir mig að flytja á Skagaströnd og upplifa að þurfa að forgangsraða vatnsnotkun á aðfangadag, að finna þegar kólnaði í íbúðinni þegar það var rafmagnslaust o.fl.  Ég sætti mig auðvitað við þetta af því hér vildi ég búa en svo sannarlega tók ég eftir þeim lífsgæðum sem í því eru fólgin að hafa eða hafa ekki hitaveitu.

 

Það er auðvitað alltaf hægt að deila um hvenar er rétti tíminn en okkar tækifæri var núna vegna breytinga á stærð lagnar frá Reykjum að Blönduósi og óvíst hvenar eða hvort svona tækifæri kæmi aftur til okkar.

 

Það var stór ákvörðun að leggja 180 miljónir í hitaveitu en ég tel að þessum fjármunum sé vel fyrir komið í þessu verkefni.  Þegar við tökum að okkur að stjórna sveitafélagi verðum við alltaf að hafa að leiðarljósi  hag heildarinnar og einnig að hugsa um framtíð sveitafélagsins sem bjarta.  Þeir útreikningar og það mat sem við lögðum á þessa fjárfestingu bentu eindregið til þess að fjárhagslega skilaði hún sér vel ef horft er til 20-25 ára svo ekki sé talað um lengri framtíð.  Auk þess höfum við fulla trú á að möguleikar atvinnulífs séu miklu meiri en ella þegar hitaveita hefur verið lögð til Skagastrandar.

 

Kæru Skagstrendingar ég vona að við munum standa saman um að byggja upp öfluga hitaveitu til þess að geta boðið Skagaströnd sem enn betri kost fyrir atvinnustarfsemi og einstaklinga sem hafa hug á að færa sig um set,  já eða stofna  fjölskyldu eða fyrirtæki á okkar frábæra stað.

Péturína L. Jakobsdóttir