Hjaltalín í Bjarmanesi í kvöld

Hljómsveitin Hjaltalín heldur í kvöld, 7. júlí, tónleika í Bjarmanesi og hefjast þeir klukkan 20. 

Lára Rúnars, ásamt hljómsveit hennar, mun sjá um upphitun.

Hljómsveitin Hjaltalín var stofnuð í  Menntaskólanum við Hamrahlíð haustið 2004 í tengslum við lagasmíðakeppni nemendafélagsins, Óðrík algaula. 

Hjaltalín fékkst við margvíslega tónlist framan af og gekk í gegnum þó nokkrar mannabreytingar. Um haustið 2006 kom hljómsveitin fram á Iceland Airwaves-hátíðinni og fékk þá til liðs við sig söngkonuna Sigríði Thorlacius og var þá hljómsveitin fullskipuð. 

Eftir að lagið „Goodbye July / Margt að ugga“ hlaut óvænta athygli á öldum ljósvakans fór hljómsveitin inn í hljóðver og tók upp frumburð sinn, plötuna „Sleepdrunk Seasons“. Platan kom út síðla árs 2007 og hlaut góðar undirtektir gagnrýnenda og hlustenda. 

Sveitin var valin bjartasta vonin á Íslensku Tónlistarverðlaununum árið 2008 og Högni útnefndur lagahöfundur ársins. 

Sumarið 2008 tók hljómsveitin upp tökulagið Þú komst við hjartað í mér, sem komið hafði út á plötu Páls Óskars þá um jólin. Lagið varð geysivinsælt á stuttum tíma og varð þegar upp var staðið vinsælasta lag ársins 2008.