Höfðaskóli í 3. sæti í Skólahreysti

Fimmtudaginn 8. mars s.l. fór fríður hópur frá Skagaströnd til Akureyrar.  Voru þar á ferð nemendur úr 8.-10. bekk Höfðaskóla sem voru á leið í Höllina á Skólahreysti 2007.  Skólahreysti er keppni milli grunnskóla landsins og fer þannig fram að 4 keppendur koma frá hverjum skóla og etja kappi í 5 greinum sem tengjast þoli, styrk og snerpu.  Í hverri viku er haldin undankeppni þar sem nokkrir skólar etja kappi saman og kemst sigurvegari í úrslitakeppnina sem fram fer í Laugardalshöll í apríl.  Hver undankeppni er svo sýnd á Skjá einum á þriðjudagskvöldum kl. 20:00.

Í undankeppninni s.l. fimmtudag tóku alls 9 skólar víðsvegar að frá Norðurlandi þátt.  Keppnin var æsispennandi allan tímann, ekki bara inni á vellinum heldur líka í áhorfendastúkunni og létu nemendur Höfðaskóla ekki sitt eftir liggja þar, frekar en í keppninni sjálfri.

Keppendur Höfðaskóla, þau Ingimar Vignisson, Patrik Snær Bjarnason, Silfá Sjöfn Árnadóttir og Sólrún Ágústa stóðu sig mjög vel og hafnaði liðið í 3. sæti, á eftir Borgarhólsskóla frá Húsavík sem varð í 2. sæti og Grunnskóla Siglufjarðar sem sigraði þessa umferð.  Glæsilegur árangur hjá keppendum Höfðaskóla og eiga þau og þjálfari þeirra, Helena Bjarndís Bjarnadóttir íþróttakennari hrós skilið.  Liðið lagði mikið á sig og æfði vel fyrir keppnina, fór m.a. í æfingaferð í Voga á Vatnsleysuströnd þar sem finna má útihreystibraut sem hentaði vel til æfinga fyrir Skólahreystina.

Að keppni lokinni var síðan haldið á pizzahlaðborð á Greifanum og tóku unglingarnir vel til matar síns enda örþreyttir og svangir eftir öll átökin og köllin í stúkunni.  Heimferðin gekk vel og var vel tekið undir fm957- slögurunum í útvarpinu rútubílstjóranum, Ágústi frá Geitaskarði, til mikillar ánægju. Það voru sælir en þreyttir nemendur sem komu aftur til Skagastrandar um tíuleytið, með 3. sætið í Skólahreysti upp á vasann.  Ekki síður voru kennararnir sem fóru með í ferðina ánægðir við heimkomuna enda stóðu nemendurnir sig mjög vel í einu og öllu og voru skólanum sínum til mikils sóma.   Fyrir þá sem vilja kynna sér Skólahreysti nánar má benda á heimasíðuna www.skolahreysti.is og svo sjónvarpsþættina á þriðjudagskvöldum.

 

 

Með kærri kveðju, Heiðrún Tryggvadóttir og Ágúst Ingi Ágústsson.